Vísindasjóður Göngum saman hefur nú í fimmtánda skipti veitt styrki sína á sviði grunnrannsókna á brjóstakrabbameini og námu styrkveitingar að þessu sinni fimmtán milljónum króna. Hlutu fimm fræðimenn og nemendur styrki er þeim var útdeilt í fyrradag, 11. október.
Aldís María Antonsdóttir, meistaranemi i lífeindafræði við Háskóla Íslands, hlaut 2,5 milljónir króna til verkefnisins „Hlutverk peroxidasin (PXDN) í meinvarpandi brjóstakrabbameini“
Alexander Örn Kárason, meistaranemi i lífeindafræði við Háskóla Íslands, hlaut 2,5 milljónir króna til verkefnisins „Óstöðugir telomerar í BRCA2 vanvirkum brjóstafrumulínum í tengslum við nýja marksækna meðferð gegn POLQ og RAD522“
Berglind Eva Benediktsdóttir, dósent við lyfjafræðideild Háskóla Íslands, hlaut 2,5 milljónir króna til verkefnisins „Sérhannaðar utanfumubólur með sækni gegn þríneikvæðum brjóstakrabbameinum“
Kristrún Ýr Holm, doktorsnemi í heilbrigðisvísindum við Háskóla Íslands, hlaut 4 milljónir króna til verkefnisins „Leit að lífmerkjum fyrir snemmgreiningu brjóstakrabbameina“
María Rose Bustos, rannsóknamaður við heilbrigðisvísindasvið Háskóla Íslands, hlaut 3,5 milljónir króna til verkefnisins „Tap á arfblendni og tjáning estrógen viðtaka í brjóstakrabbameinum BRCA2999Δ5 arfbera“
Kristrún Ýr, sem hlaut hæsta styrkinn í ár, vinnur að því í doktorsverkefni sínu að finna lífmerki (e. biomarkers) í blóðvökva brjóstakrabbameinssjúklinga og með því þróa nýja og bætta snemmgreiningaraðferð sem gæti borið kennsl á brjóstakrabbamein á á byrjunarstigi.
Í fréttatilkynningu frá Göngum saman kemur fram að rannsóknarverkefni séu metin samkvæmt faglegu gæðamati en auk vísindanefndar Göngum saman leggur ytri ráðgjafanefnd mat á umsóknirnar. Styrkveitingin byggi að mestu leyti á frjálsum framlögum einstaklinga sem hafa lagt hafa sitt af mörkum með þátttöku í fjáröflunum félagsins, sem voru margvíslegar í ár, svo sem Þórsmerkurferð með Volcano Trails, kaup á Brjóstasnúðum Brauð&co í tilefni Mæðradagsins, áheit á hlaupara í Reykjavíkurmaraþoninu og kaupum á ýmsum söluvarningi félagsins.
„Einnig hafa ýmis félagasamtök, fyrirtæki og einstaklingar lagt Göngum saman lið, en megináhersla er á að öll framlög renni óskipt í vísindasjóð félagsins. Göngum saman hefur veitt nær 135 milljónum króna til grunnrannsókna á brjóstakrabbameini frá stofnun félagsins árið 2007,“ segir í tilkynningunni.