Gæsluvarðhalds krafist áfram í hryðjuverkamálinu

Ólafur Þór Hauksson héraðssaksóknari.
Ólafur Þór Hauksson héraðssaksóknari. mbl.is/Árni Sæberg

„Það verður farið fram á gæsluvarðhald á morgun,“ segir Ólafur Þór Hauksson héraðssaksóknari í samtali við mbl.is, spurður út í stöðu máls tveggja manna sem grunaðir eru um að hafa ætlað að fremja hryðjuverk hér á landi nú fyrir skemmstu.

Síðasti gæsluvarðhaldsúrskurður yfir mönnunum fellur úr gildi á morgun og staðfestir saksóknari að framhalds verði óskað. „Rannsókninni miðar ágætlega en þetta er töluvert umfangsmikið,“ segir Ólafur og kveður enga ákvörðun hafa verið tekna um hvort haldnir verði frekari upplýsingafundir svo sem var við upphaf málsins. „Það hefur ekki verið rætt en við vitum það bara þegar lengra líður á þetta,“ segir Ólafur.

Nafngreindir – er það bagalegt?

Hinir grunuðu hafa verið nafngreindir á vettvangi annarra fjölmiðla, hefur slíkt áhrif á rannsókn lögreglu? „Nei, það gerir það ekki. Við gefum að sjálfsögðu aldrei upp nöfn en það kemur alltaf upp af og til að nöfn séu birt en við gerum ekkert með það,“ svarar Ólafur.

Eru slík vinnubrögð rannsakendum til baga almennt?

Um það vill Ólafur ekki tjá sig. „Þetta gerist bara af og til og við getum mjög lítið gert til að bregðast við því,“ segir hann og lýkur máli sínu aðspurður með því að skýrslur hafi verið teknar af töluvert stórum hópi vegna málsins. „En við getum ekki gefið út neinar tölur þar,“ segir héraðssaksóknari.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert