Arnar Ágúst Kristjánsson og Kári Rögnvaldsson, nemendur á þriðja ári í stærðfræði við Raunvísindadeild Háskóla Íslands, hlutu viðurkenningu úr Verðlaunasjóði Sigurðar Helgasonar prófessor fyrir frábæran námsárangur.
Í ár námu verðlaunin 12 þúsund bandaríkjadölum sem er jafnvirði um 1,7 milljónum króna og var upphæðinni skipt jafnt á milli þeirra. Greitt var úr sjóðnum 30.september sem var 95 ára afmælisdagur Sigurðar.
Arnar og Kári hafa sýnt framúrskarandi árangur í námi og á fyrstu tveimur námsárunum við háskólann hafa þeir lokið nær öllum stærðfræðinámskeiðum með einkunnina 10. Þeir stefna báðir að því að útskrifast næsta vor og fara í framhaldsnám erlendis um haustið. Þetta kemur fram á vef Háskóla Íslands.
Sigurður stofnaði sjóðinn fyrir fimm árum í tilefni af 90 ára afmæli sínu. Hann færði Háskóla Íslands hlutabréfasafn í gjöf og hluti af arði bréfanna er úthlutað í verðlaun ár hvert. Arðurinn í ár nam 12 þúsund bandaríkjadölum eins og áður var nefnt.
Alls hafa ellefu hlotið viðurkenningu. Megintilgangur sjóðsins er að hvetja unga stærðfræðinga til dáða í námi og rannsóknum.