„Húsnæðið er sprungið“

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra.
Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra segir að húsnæði dagdeildar Landspítala og húsnæði dagdeildar á Sjúkrahúsinu á Akureyri sé sprungið. „Það liggur fyrir á framkvæmdaáætlun að byggja nýtt húsnæði og það þarf að reyna að hraða því eins og kostur er,“ sagði hann. 

Þetta sagði ráðherra í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag. Þar spurði Anna Kolbrún Árnadóttir, þingkona Miðflokksins, Willum hvernig hann ætlaði að bregðast við þeirri þröngu stöðu sem blasti við Sjúkrahúsinu á Akureyri. 

Anna Kolbrún sagði m.a. að á Sjúkrahúsinu á Akureyri væri hvergi næði eða pláss fyrir aðstandendur og lítið sem ekkert hægt að hreyfa sig eða eiga trúnaðarsamtöl.

Anna Kolbrún Árnadóttir.
Anna Kolbrún Árnadóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Willum þakkaði Önnu fyrir að taka málið upp. Hann benti á að aukningin væri mjög mikil á göngudeild krabbameinsþjónustu á Sjúkrahúsinu á Akureyri sem og á Landspítala.

Hefur áhyggjur að ferlið taki of langan tíma

„Þetta er um 30% aukning á skömmum tíma — ég man í svipinn ekki hvort það er á tveimur eða þremur árum sem þessi aukning er birtast — þannig að húsnæðið er sprungið. Það liggur fyrir á framkvæmdaáætlun að byggja nýtt húsnæði og það þarf að reyna að hraða því eins og kostur er og það fer væntanlega af stað, það er komið í gegnum ferla. Þá erum við að tala um legudeild, þá rýmkar um aðra staði. Aukið fjármagn hefur verið sett í svokallaða tengibyggingu, sjúkrahúsapótek, þannig að það stendur allt til bóta,“ sagði Willum.

Hann kvaðst þó hafa af því áhyggjur að þetta ferli tæki of langan tíma. 

„Þetta er eitt af þeim dæmum sem maður hefði viljað sjá gerast hraðar og gerast fyrr. En þetta er staðan og við verðum að vinna þetta náið með Sjúkrahúsinu á Akureyri. Þetta er í raun og veru bara sama staðan og er á Landspítalanum af því að við erum með alla þessa uppbyggingu þar. Auðvitað er verið að fara í gegnum mjög vandað ferli í allri uppbyggingunni sem á sér stað þar,“ sagði ráðherra. 

Ekki allir alveg sammála

Anna Kolbrún þakkaði Willum fyrir svarið og spurði svo hvort það væri ekki orðið tímabært að setja í samninga að læknar ættu að þjónusta ákveðinn fjölda íbúa landsins þar sem þeir búa.

„Það hafa svo sem verið aðeins skiptar skoðanir um hversu langt eigi að ganga eftir því hvaða sérfræðigreinar við erum að tala um, það er mismunandi þróun í þessu, og hvort það eigi að festa þetta í samninga og skylda. Það eru ekki alveg allir sammála því en það þarf að vinna með þetta. Það er aðeins snúið en þetta hefur verið inni í samningsmarkmiðum,“ svaraði ráðherra. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert