Ríkisendurskoðun hefur sent fjármála- og efnahagsráðuneytinu, Bankasýslu ríkisins og stjórn Bankasýslunnar drög að skýrslu embættisins um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Ríkisendurskoðunar.
Þar kemur fram að skýrslan beri heitið „Sala á hlut ríkisins í Íslandsbanka 22. mars 2022,“ en umsagnarfrestur er veittur til næsta miðvikudags.
Áréttar embættið jafnframt að trúnaður gildi um umsagnardrögin og að ekki verði fjallað efnislega um skýrsludrögin í umsagnarferlinu, hvorki af embættinu né umsagnaraðilum.
Skýrslunnar hefur verið beðið um nokkur skeið, en upphafleg áætlun miðaðist við að skýrslan kæmi út fyrir lok júní en sú áætlun miðaðist við það að öll gögn lægju fyrir í málinu, en svo reyndist ekki vera. Í lok júní sagði Guðmundur Björgvin Helgason ríkisendurskoðandi við mbl.is að skýrslunni myndi seinka, en að hann væri bjartsýnn á að það tækist að skila henni til Alþingis fyrir verslunarmannahelgi.
Um miðjan ágúst sagði Guðmundur svo að skýrslunnar væri að vænta fyrir lok ágúst. Enn tafðist útgáfan og í byrjun september sagði Guðmundur við Vísi að skýrslan væri á lokametrunum og að búast mætti við henni á næstu dögum. Um miðjan september sagði Guðmundur við mbl.is að enn væri búist við skýrslunni fyrir lok mánaðarins, en tekið var fram að útgáfudagur lægi ekki fyrir.