Sala á jólabjór hefst í Vínbúðunum fimmtudaginn 3. nóvember næstkomandi. Það er degi fyrr en í fyrra en þetta verður þriðja árið í röð sem sala á jólabjór hefst á fyrsta fimmtudegi í nóvember. Hefð er fyrir því að J-dagurinn svokallaði, þegar sala hefst á Tuborg-jólabjór á börum og veitingahúsum, sé haldinn hátíðlegur fyrsta föstudaginn í nóvember.
Samkvæmt upplýsingum frá ÁTVR hafa framleiðendur og innflytjendur sótt um sölu á 109 tegundum jólabjórs þetta árið. Það er einni tegund meira en í fyrra en óvíst er þó hvort allar þessar bjórtegundir skila sér í hillur Vínbúðanna. Auk bjórsins hefur verið sótt um sölu á ellefu tegundum af snafsi og jólabrennivíni.
Ora-jólabjórinn sem sló í gegn í fyrra verður aftur á boðstólum í ár og sömuleiðis þekktar jólabjórtegundir á borð við Bjúgnakræki, Einstök DoppelBock, Giljagaur, Hvít jól og Jólakisu. Þá munu nýju tegundirnar Fönn, Dimmuborgir, Freysgoði, Jóla Skarfur og Skyrjarmur eflaust gleðja bjóráhugafólk.