Katrín tekur ekki undir að stjórnlaust ástand ríki

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra getur ekki tekið undir það að stjórnlaust ástand ríki hér á landi í málefnum flóttafólks. Nú séu fordæmalausar aðstæður í heiminum hvað varðar fjölda fólks á flótta og það er ekki nema eðlilegt að við Íslendingar finnum fyrir þeim aðstæðum.

Þá furðar Katrín sig á þeim málflutningi að ekkert samráð hafi verið haft við sveitarfélög vegna móttöku flóttafólks

Þetta kom fram í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag. Þar spurði Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, Katrínu hvort það væri stefna ríkisstjórnarinnar að koma í veg fyrir að fólk frá ríkjum á borð við Venesúela og Sýrland gæti komið til Íslands og fengið vernd í samræmi við ákvæði Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna.

Frjálslega farið með staðreyndir

Helga Vala sagði jafnframt, að undanfarna viku hefðu þingmenn Sjálfstæðisflokks, með Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra í broddi fylkingar, farið mikinn í umræðu um stjórnlaust ástand í málefnum flóttafólks og umsækjenda um vernd hér á landi „en fordæmalaus fjöldi fólks er á flótta í heiminum, ekki síst vegna stríðsins í Úkraínu. Það verður að viðurkennast að nokkuð frjálslega hefur verið farið með staðreyndir og alið mjög á ótta um að hér sé jafnvel allt að fyllast af afbrotafólki þegar um er að ræða fólk sem flýr stríðshörmungar,“ sagði Helga Vala og benti á þær breytingar sem dómsmálaráðherra hefði boðað á útlendingalögum, með það að markmiði að draga úr fjölda þeirra sem hingað leita. 

Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, spurði forsætisráðherra út í málefni …
Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, spurði forsætisráðherra út í málefni flóttafólks á Alþingi. mbl.is/Árni Sæberg

Katrín sagði í svari sínu, að það væri hárrétt að það væru fordæmalausar aðstæður í heiminum hvað varðar fjölda fólks á flótta og það væri ekki nema eðlilegt að Íslendingar finndu fyrir þeim aðstæðum.

Katrín benti á, að langflest sem hingað hefðu leitað á þessu ári kæmu frá Úkraínu og það hefði verið ákvörðun stjórnvalda „og ég hef ekki skilið annað en að við séum öll sammála um þá ákvörðun, að við myndum opna dyr okkar fyrir fólki sem leitar skjóls vegna þeirra skelfilegu stríðsátaka sem þar eru. Þau sem hafa hingað leitað frá Úkraínu eru hátt í 1.900 af þeim ríflega 3.000, 3.133, sem hingað hafa leitað á árinu og 653 koma frá Venesúela,“ sagði Katrín.

Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra hefur boðað breytingar á útlendingalögum.
Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra hefur boðað breytingar á útlendingalögum. mbl.is/Árni Sæberg

Snýst um tvær ákvarðanir

Hún tók enn fremur fram, að ástæðan fyrir þeim fjölda sem hingað hefur komið frá Venesúela væri úrskurður kærunefndar útlendingamála.

„Þannig að ég vil undirstrika það hér að í raun og veru eru það tvær stjórnvaldsákvarðanir sem hafa verið teknar, annars vegar af hálfu stjórnvalda að bjóða öll velkominn frá Úkraínu og hins vegar ákvörðun kærunefndar, sem eru ástæðan fyrir þessu. Því get ég ekki tekið undir að hér sé stjórnlaust ástand. Þetta eru ákvarðanir sem hafa verið teknar. Þegar við lítum á önnur þau sem hingað hafa komið er sá fjöldi í sjálfu sér ekkert umfram það sem ætla mætti að væri eðlilegt,“ sagði ráðherra.

Hún tók aftur á móti fram að þetta skapaði auðvitað álag.

„Þetta skapar álag á húsnæðismál hjá sveitarfélögum, þetta skapa álag úti í skólunum og m.a. vegna þessara aðstæðna hef ég stofnað ráðherranefnd um málefni útlendinga og innflytjenda þar sem ætlunin er að fara heildstætt yfir þessi mál. Þar sitjum við dómsmálaráðherra, félags- og vinnumarkaðsráðherra, mennta- og barnamálaráðherra, háskólaráðherra og forsætisráðherra, af því að auðvitað þurfum við að tryggja það að við getum tekist á við stöðuna með sómasamlegum hætti,“ sagði hún. 

Kannast ekki við samráðsleysi

Þá furðaði Katrín sig á þeim málflutningi sem hún hefur heyrt opinberlega um að ekkert samráð hefði verið haft við sveitarfélög vegna móttöku flóttafólks.

„Raunar hefur nefnd verið starfandi frá árinu 2017 um samræmda móttöku flóttafólks og hennar hlutverk var að gera tillögur að samræmdu móttökukerfi fyrir flóttafólk óháð því hvernig það kæmi til landsins. Við erum búin að ræða þetta margoft á vettvangi Alþingis,“ sagði Katrín. 

.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert