„Hnattræn hlýnun er vandamál sem við verðum að taka mjög alvarlega þar sem loftslagsbreytingar eru nú þegar að eiga sér stað.
Það eru tvö megin vopn í baráttunni gegn loftslagsvánni, annars vegar að draga úr losun koltvísýrings og öðrum gróðurhúsalofttegundum og hins vegar aðlögun; hvernig við bregðumst við og aðlögum okkur að nýjum veruleika, verndum samfélög okkar og fólk,“ segir Hákon krónprins í samtali við mbl.is.
Hákon krónprins mætti í Hellisheiðarvirkjun fyrr í dag, þar sem hann fékk kynningu á starfsemi virkjunarinnar. Helga Jónsdóttir, stjórnarformaður Orku náttúrunnar, tók á móti prinsinum og ávarpaði gesti.
Tækni Carbfix var í fyrirrúmi en fyrirtækinu hefur tekist að hanna tækni sem sogar koltvísýring úr andrúmsloftinu og dælir honum niður í jörðina.
Hákon krónprins segir líklegt að tækni sem þessi muni nýtast vel í baráttunni gegn hnattrænni hlýnun en mikilvægt sé að hafa hraðar hendur.
„Carbfix verkefnið lofar góðu og gefur okkur von um það að hægt sé að fara í hraða uppbyggingu á þessari tækni, sem er mjög gott. Noregur er einnig að vinna að svipaðri tækni.“
Noregur er stærsti olíuframleiðandi í Vestur-Evrópu og námu útflutningstekjur þeirra af olíusölu um 40 milljörðum dala á síðasta ári. Spurður hvort einhverjar breytingar á þessu séu í farvatninu svarar hann því neitandi.
„Noregur er olíu- og gasframleiðandi og hefur verið það nú í marga áratugi. Við viljum flýta fyrir orkuskiptum og gera grænni orku hærra undir höfði í heiminum. Við erum bæði að vinna að því í Noregi að draga úr losun og einnig erum við að nota áhrif okkur alþjóðlega til þess flýta fyrir orkuskiptunum.“
„Þetta er áskorun sem heimurinn stendur frammi fyrir og nú erum við háð jarðefnaeldsneyti. Við vonumst til þess að skipta yfir í endurnýjanlega orkugjafa hratt og örugglega og við vinnum hart að því í Noregi. Hvernig og hvenær við gerum það, vitum við ekki.“