Nái hámarki seinni partinn eða í nótt

Við Grímsvötn. Myndin er úr safni.
Við Grímsvötn. Myndin er úr safni. mbl.is/RAX

Jökulhlaup úr Grímsvötnum heldur áfram og áætlað rennsli þaðan komið yfir 350 rúmmetra á sekúndu.

Sig íshellunar þar sem mælitæki eru staðsett er nú um 11 m miðað við 7 metra á sama tíma í gær. Áfram er gert ráð fyrir því að rennsli útúr Grímsvötnum nái hámarki seinnipartinn í dag eða næstu nótt og verði þá nærri 500 m3/s, að því er fram kemur á vef Veðurstofu Íslands.

Þá kemur fram, að frá því snemma í gærmorgun hafi sést merki um hlaupvatn í Gígjukvísl við þjóðveg 1, bæði á vefmyndavélum og vatnshæðamæli. Gera megi ráð fyrir því að rennsli þar haldi áfram að vaxa og nái hámarki um það bil sólarhring seinna en hámarksrennsli út úr Grímsvötnum. Hámark þessa hlaups niðri við þjóðveg mun því jafnast á við venjulegt sumarrennsli í Gígjukvísl og mun ekki hafa nein áhrif á mannvirki s.s. vegi og brýr.

Engar markverðar breytingar hafa sést á skjálftavirkni í eldstöðinni í Grímsvötnum samhliða þessum atburði og engin gosórói mælist. Veðurstofan ásamt vísindamönnum Jarðvísindastofnunar Háskólans munu halda áfram að vakta Grímsvötn náið næstu sólarhringana og verða birta upplýsingar eftir því hvernig atburðurinn þróast, að því veðurstofan greinir frá. 

Kort/Veðurstofa Íslands
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert