Ólafur hreinsar vatn á hamfarasvæði í Pakistan

Ólafur er hér ásamt heimamanni við hreinsunareininguna. Ólafur mun vera …
Ólafur er hér ásamt heimamanni við hreinsunareininguna. Ólafur mun vera úti áfram fram í nóvember í tengslum við rekstur stöðvarinnar. Ljósmynd/Ólafur Loftsson

Gríðarlegar hamfarir hafa síðustu mánuði gengið yfir Pakistan, en í ágúst lýsti forseti landsins yfir neyðarástandi vegna flóða. Íslendingur sem að sérhæfir sig í aðgerðum og aðgerðastjórnun á hamfarasvæðum er á meðal þeirra sem nú eru á svæðinu, en hann tekur þátt í vatnshreinsunarverkefni til að framleiða hreint drykkjarvatn fyrir þúsundir dag hvern. mbl.is ræddi við hann um starfsemina og ástandið sem skapast hefur vegna hamfaranna.

Samtals 1.700 manns hafa látist í flóðunum og þurftu um níu milljónir að yfirgefa hús sín, en talið er að tvær milljónir heimila hafi eyðilagst í hamförunum. Þá er áætlað að milljónir fjölskyldna búi nú í fjöldahjálparbúðum á hamfarasvæðunum. Enn sér ekki fyrir endann á flóðunum, enda á vatnið víða sér enga leið í burtu nema það gufi upp. Vatnsbrunnar hafa flestir mengast vegna þessa, en við slíkar aðstæður eykst smitsjúkdómahætta mikið þar sem grundvallaratriði eins og hreint vatn er ekki í boði.

Ólafur Loftsson er þessa stundina staddur í bænum Dhipro, í Sindh héraði, um 350 kílómetra norðaustur af höfuðborginni Karachi, en þar starfar hann ásamt fólki á vegum varnarmálaráðuneyta og almannavarnadeilda annarra Norðurlanda við vatnshreinsistöð sem Danir útveguðu. Getur stöðin framleitt allt að 60-70 þúsund lítra af hreinu vatni daglega, en það dugir sem drykkjarvatn fyrir 10-20 þúsund íbúa.

Íbúar í nágrenninu geta komið og sótt sér hreint vatn …
Íbúar í nágrenninu geta komið og sótt sér hreint vatn við hreinsunarstöðina og segir Ólafur að vatnið klárist á hverjum degi. Ljósmynd/Ólafur Loftsson

Engin leið fyrir vatnið nema með uppgufun

„Hér hafa verið gríðarleg flóð þannig að vatnið hættir að geta runnið ofan í jarðveginn. Það eina sem vinnur á vatninu er hitinn og sólin,“ segir Ólafur í samtali við mbl.is þegar hann lýsir stöðunni í Dhipro. „Við aðstæður sem þessar verður vatnið drulluskítugt og það er ekki hægt að nota það [til drykkjar] og af því skapast mikil sjúkdómshætta,“ bætir hann við. Þannig hafa erlendir fjölmiðlar greint frá því að á annað hundrað þúsund tilfelli hafa komið upp af malaríutilfellum og hafa yfirvöld og alþjóðastofnanir áhyggjur af því að fleiri faraldrar fari af stað.

Einum og hálfum mánuði eftir hámark úrhellisins og flóðanna er …
Einum og hálfum mánuði eftir hámark úrhellisins og flóðanna er enn allt á floti. Ljósmynd/Ólafur Loftsson

Ólafur var kallaður til starfa eftir að danska stofnunin DEMA, sem er sambærilegt við blöndu af almannavörnum og björgunarsveitum hér á landi, hafði sett upp hreinsistöð í Dhipro og rekið hana í einn mánuð. Segir hann að Danirnir hafi séð fram á að þurfa að draga úr vatnsframleiðslunni eða hætta með hana nema að fá aðstoða til að starfrækja framleiðsluna. Kom því beiðni í gegnum norrænan samstarfsvettvang almannavarnadeilda og segir Ólafur að einhver hafi greinilega rekið augun í reynslu hans og því haft var samband við hann frá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra og utanríkisráðuneytinu og hann beðinn um að fara út.

Ljósmynd/Ólafur Loftsson

Aðeins 250-300 manns á heimsvísu í hópnum

Ólafur segir að hann hafi lengi verið á útkallslista Sameinuðu þjóðanna vegna náttúruhamfara. Hann er félagi í Hjálparsveit skáta í Reykjavík og í gegnum hana tók hann þátt í starfi íslensku alþjóðabjörgunarsveitarinnar og var sendur til Haítí eftir jarðskjálftana árið 2010. Það vatt svo upp á sig og síðar varð hann einn liðsmanna UNDAC, viðbragðshóps Sameinuðu þjóðanna sem kalla má út í kjölfar náttúruhamfara hvar sem er í veröldinni. Eru aðeins um 250-300 manns á heimsvísu hluti af því teymi og hefur hann þurft að fara víða vegna starfsins og komið að því að leggja línur varðandi fyrstu aðgerðir í kjölfar náttúruhamfara.

Allt enn umflotið einum og hálfum mánuði síðar

Spurður nánar um aðstæður í Dhipro og Pakistan segir Ólafur að allt sé enn umflotið og allir brunnar séu mengaðir. Þá búi fólk út um allt, á götum eða vegaköntum í einhverskonar skýlum sem oft séu ekki meira en bambusstangir sem haldi uppi örlitlu skjóli. Ólafur segir að þegar hann hafi komið frá höfuðborginni Karachi hafi alls staðar verið uppskera á floti og vatn upp á miðja veggi húsa þar sem ástandið var verst. Rétt er að taka fram að þetta er um einum og hálfum mánuði eftir að miklar rigningar og flóðin náðu hámarki, þannig að ástandið batnar hægt.

Skýli sem fólk hefur útbúið fyrir sig og sjá má …
Skýli sem fólk hefur útbúið fyrir sig og sjá má víða meðfram vegköntum á flóðasvæðinu. Ólafur segir þetta lítið meira en bambusstangir sem haldi uppi örlitlu skjóli. Talið er að tvær milljónir heimila hafi eyðilagst í flóðunum. Ljósmynd/Ólafur Loftsson

Ólafur segir að innan Evrópusambandsins hafi ýmsar stofnanir og lönd ákveðin hlutverk þegar komi að neyðaraðstoð sem þessari. Þannig hafi DEMA m.a. sérhæft sig í að koma upp vatnshreinsunareiningu. Slíkri einingu þarf einnig að fylgja allt sem þarf fyrir reksturinn, en Ólafur segir að ásamt sér séu ellefu aðrir starfsmenn frá Noregi, Svíþjóð og Danmörku sem sjái um rekstur einingarinnar. Öll þurfa þau meðal annars svefnaðstöðu og aðgengi að salerni, en gist er í tjöldum.

Mosagrænt og skítugt vatn inn, kristaltært út

En hvernig er hægt að hreinsa vatn við þessar aðstæður og gera það drykkjarhæft? Ólafur lýsir því þannig að vatni sé dælt upp með fjórum stærri dælum og nokkrum minni. Vatnið sé tekið inn um stóra belgi og fari svo í gegnum fjölbreytt hreinsikerfi og fjöldan allan af síum. Þegar það hafi farið í gegnum þetta ferli allt sé vatninu svo dælt annað hvort á bíla sem keyri með vatn á ákveðnar vatnsstöðvar sem hópurinn hefur komið upp, eða beint til fólks sem kemur á staðinn til að sækja vatn. Til viðbótar fær einn skóli vatn úr framleiðslunni.

Ólafur lýsir því þannig að vatnið sem dælt sé inn sé alveg mosagrænt og skítugt, en þegar það hafi farið í gegnum hreinsunarferlið komi það kristaltært út. Þá sé þetta einnig vatnið sem hópurinn noti sjálfur fyrir sínar þarfir og segir hann ótrúlegt hversu vel sé hægt að hreinsa vatnið.

Belgirnir sem vatninu er dælt í við upphaf hreinsunarferlisins.
Belgirnir sem vatninu er dælt í við upphaf hreinsunarferlisins. Ljósmynd/Ólafur Loftsson

Mæla vatnið fyrir e.coli

Samhliða því að þrífa reglulega dælur og hreinsibúnaðinn og skipta um síur þarf hópurinn að sögn Ólafs að mæla reglulega fyrir e.coli-bakteríum og ph-gildi vatnsins. Framleiðslugetan er eins og fyrr segir 60-70 þúsund lítrar, jafnvel ríflega það, en vatnið er hreinsað allan sólarhringinn. Spurður um fjölda þeirra sem vatnið gagnist segir Ólafur erfitt að segja til um það, en að vatnsþörf hvers og eins sé um 4-5 lítrar á dag. Út frá því er hægt að áætla að framleiðslan dugi 10-20 þúsund manns.

Hreinsunareiningunni fylgir mikill tækjabúnaður, meðal annars dælur.
Hreinsunareiningunni fylgir mikill tækjabúnaður, meðal annars dælur. Ljósmynd/Ólafur Loftsson

Áhrif flóðanna gæti gætt næstu árin

Ólafur mun starfa með hópnum fram í nóvember, en eins og sú tímalengd gefur til kynna er aðsteðjandi vandi í Pakistan vegna flóðanna langt frá því að vera úr sögunni. Þannig hefur António Guterres, aðalritari Sameinuðu þjóðanna, varðað við því að áhrif flóðanna muni vara næstu árin. Jafnframt hefur hann varað við því að landið sé á barmi heilbrigðishörmunga. Ólafur verður þó ekki eini Íslendingurinn, því eftir um vikutíma er Orri Gunnarsson frá Rauða krossi Íslands einnig væntanlegur út í tengslum við þetta verkefni.

Shehbaz Sharif, forsætisráðherra Pakistan, hefur metið tjónið af hamförunum á 30-35 milljarða Bandaríkjadali, eða sem nemur 4.000 til 5.000 milljörðum íslenskra króna, en meðal annars er áætlað að yfir 16 þúsund ferkílómetrar af kornræktarlandi hafi skemmst í flóðunum.

Íslenski fáninn ásamt þeim sænska, norska og danska, við hreinsunareininguna.
Íslenski fáninn ásamt þeim sænska, norska og danska, við hreinsunareininguna. Ljósmynd/Ólafur Loftsson

„Maður fer bara í það sem þarf að gera“

Þetta er alls ekki fyrsta skiptið sem Ólafur fer á hamfarasvæði, en ljóst er að þetta er nokkuð annað ástand en var til dæmis eftir jarðskjálftana á Haíti. Spurður um þennan mun segir Ólafur að á Haítí hafi vinnan fyrst og fremst snúist um fyrstu hjálp og neyðarbjörgun. „Hér er þetta allt annað tempó, ekki sami hraði og ekki bráða lífsbjörgun,“ segir hann og bætir við að hluti af starfinu núna sé í raun forvarnarstarf og að reyna að koma í veg fyrir að slæmir sjúkdómar komi upp. Í grunninn sé þetta þó líkt að mörgu leyti. „Maður fer bara í það sem þarf að gera,“ segir Ólafur og bætir við að reynsla og þjálfun skipti samt gríðarlegu máli.

Að starfa reglulega á hamfarasvæðum þar sem neyð er mikil getur ekki verið fyrir alla og spurður út í það hvernig hægt sé að undirbúa sig fyrir svona aðstæður segir Ólafur að hann hafi áður lýst því þannig að þetta sé eins og með hæðarveiki. „Maður veit aldrei fyrr en maður kemur upp í mikla hæð hvort að maður verði veikur eða ekki. Ég ímynda mér að þetta sé líka þannig.“ Segir Ólafur að vel sé hugað að þeim sem starfi á þessum vettvangi og meðal annars hafi hann og samstarfsfólk hans aðgang að sálgæslu ef þurfa þykir. „En ég hef verið heppinn með að hafa komist þokkalega í gegnum þann þátt,“ segir Ólafur að lokum.

Samtals er hægt að hreinsa um 60-70 þúsund lítra daglega …
Samtals er hægt að hreinsa um 60-70 þúsund lítra daglega í stöðinni. Ljósmynd/Ólafur Loftsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert