Schengen sett í hættu

Flugstöð Leifs Eiríkssonar.
Flugstöð Leifs Eiríkssonar. mbl.is/​Hari

Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra segir aðild Íslands að Schengen-samstarfinu geta verið í hættu ef íslensk stjórnvöld uppfylli ekki þær reglur, sem þar eru settar um meðferð fólks, sem fær synjun um landvist.

Þetta kemur fram í viðtali Dagmála, streymi Morgunblaðsins á netinu, sem opið er öllum áskrifendum og birt er í dag.

Þar segir hann breytingar á útlendingalögum ekki þola neina bið vegna æ þyngri straums hælisleitenda til landsins. Þar þurfi að líta bæði til fjöldans, kostnaðar og álags á innviði, sem séu kolsprungnir.

Þarf að virða Schengen

Þá segir Jón bráðnauðsynlegt að landið standi við og uppfylli skyldur sínar gagnvart Schengen-samstarfinu. Misbrestur á því valdi erfiðleikum í samskiptum við samstarfsríkin og geti sett aðild Íslands að því í uppnám.

„Sérstaklega þegar kemur að þeim Schengen-reglum, sem okkur ber að fylgja varðandi brottvísun og úrræði á landamærunum,“ segir Jón. Hann nefnir þar sérstaklega móttökustöðvar og skilyrt búsetuúrræði þegar fólk á að fara úr landi, sem allar aðrar þjóðir hafi.

„Það er skylda okkar að koma þessu upp og við þurfum að bregðast við þeim skyldum, annars getur hreinlega samstarf okkar innan Schengen verið í hættu,“ segir dómsmálaráðherra.

Hann segir nauðsynlegt að eiga gott samstarf við nágrannalönd í þessum efnum, ekki síst í ljósi þess að skipulögð glæpastarfsemi komi oft við sögu.

Lesa má nánar um málið í Morgunblaðinu í dag. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert