Arnaldur Bárðarson hefur sagt af sér embætti formanns Prestafélags Íslands vegna óskar þar um frá Félagi prestvígðra kvenna.
Hann segist í samtali við mbl.is hafa ætlað að segja af sér á aukaaðalfundi félagsins 10. október en fundarboðið hafi misfarist. Því hafi fundinum verið frestað. Engu að síður hafi hann ákveðið að standa við yfirlýsingu sína og sagt af sér embætti.
Félag prestvígðra kvenna fór fram á afsögn hans í síðasta mánuði vegna þess að það taldi Arnald vanhæfan til að gæta hagsmuna alls félagsfólks. Taldi félagið hann hafa tekið meðvitaða afstöðu með geranda í ofbeldismáli.
Arnaldur sagðist í kjölfarið ekki ætla að segja af sér en hefur núna snúist hugur. Hvers vegna?
„Ég fékk þá sýn að við gætum ekki verið þetta fagfélag og stéttarfélag sem við erum sambland af. Í framhaldinu hef ég sagt mig úr Prestafélagi Íslands og gengið inn í stærra stéttarfélag sem er Fræðagarður,“ greinir hann frá.
„Það er mín sýn að við eigum þar erindi prestastéttin ásamt djáknum sem eru þar inni nú þegar. Með öðrum orðum þá held ég að háskólamenntað starfsfólk þjóðkirkjunnar ætti að vera í svona stóru stéttarfélagi.“
Spurður hvers vegna það ætti að vera í stóru stéttarfélagi segir hann að örlítið stéttarfélag eins og Prestafélag Íslands setji starfsfélaga í erfiða stöðu. „Þegar þarf að standa með félagsmönnum í réttindamálum þá upplifa aðrir, jafnvel samstarfsmenn viðkomandi, að það sé verið að taka afstöðu. Við getum ekki sett kollega okkar í þessa aðstöðu að fara inn í starfsmanna- og mannauðsmál í stéttarfélagi og vera líka kollegar. Það næst ákveðin fjarlægð með því að fara inn í stórt stéttarfélag.“
Arnaldur nefnir einnig að Fræðagarður hafi náð betri kjarasamningi við kirkjuna en Prestafélag Íslands, sem sé stórt atriði.
Spurður segir hann það ekkert leiðinlegt að segja af sér embættinu heldur sé það nauðsynlegt í þróun Prestafélags Íslands. Þetta muni leiða til góðs.
Ertu að viðurkenna að hafa gert eitthvað rangt með afsögninni?
„Nei, aldeilis ekki. Ég hef gegnt mínu hlutverki af trúmennsku að standa vörð um réttindi allra félagsmanna. Það er hins vegar mjög erfitt í jafn litlu félagi.“
Varaformaður Prestafélags Íslands, Eva Björk Valdimarsdóttir, hefur tekið við sem formaður þangað til nýr aðalfundur verður boðaður.