„Ég fagna þessari ákvörðun stjórnar Isavia, enda löngu tímabært,“ segir Lilja Dögg Alfreðsdóttir, viðskipta- og menningarmálaráðherra, um bókun stjórnar Isavia um meðferð íslensku í flugstöðvum félagsins.
Stjórn Isavia samþykkti bókun á fundi í gær þess efnis að íslenska verði framvegis í forgrunni tungumála við endurnýjun merkingakerfis í flugstöð Leifs Eiríkssonar.
Lilja hefur sjálf lagt mikla áherslu á málefni íslenskunnar eftir að hún tók við sem mennta- og menningarmálaráðherra árið 2017.
„Ég gerði athugasemdir við þetta á sínum tíma og fylgdi þeim svo eftir í kjölfar ákvörðunar Icelandair,“ segir Lilja og vísar til þess að nú eru farþegar flugfélagsins fyrst ávarpaðir á íslensku.
Fram kom í máli Boga Nils Bogasonar að ákvörðunin hefði verið tekin í kjölfar fundar með Lilju.
„Ég heyrði í nýjum stjórnarformanni Isavia. Hann tók málið í kjölfarið upp við stjórnina. Það er auðvitað gríðarlegt fagnaðarefni að stjórnin taki þessa ákvörðun,“ segir Lilja.
Hún þakkar stjórnarformanni Isavia, Kristjáni Þór Júlíussyni, sérstaklega fyrir að sýna forystu í málinu.
Bókun stjórnar Isavia í heild sinni:
„Komið hafa fram ábendingar og gagnrýni á opinberum vettvangi, meðal annars frá stjórn Íslenskrar málnefndar 2016 og 2017, um notkun tungumála á upplýsinga- og leiðbeiningaskiltum í flugstöðinni á Keflavíkurflugvelli. Stjórn Isavia tók þessi mál til umræðu árið 2018. Á síðustu dögum hafa ábendingar og gagnrýni um þessi efni sprottið upp á ný.
Að gefnu þessu tilefni er stjórn Isavia ohf. sammála um eftirfarandi:
Nú standa yfir miklar breytingar og uppbygging á Keflavíkurflugvelli. Samhliða þeim verkefnum hefur stjórn Isavia ohf. ákveðið að gerð verði áætlun um endurnýjun merkingakerfis flugstöðvarinnar í áföngum á komandi misserum. Við þá endurnýjun verði þeirrar reglu gætt að íslenska verði framvegis í forgrunni tungumála á leiðbeiningar- og upplýsingaskiltum flugstöðvarinnar.“