Jóna Hrönn Bolladóttir, sóknarprestur í Vídalínskirkju, gagnrýnir frétt Vísis sem kom út í morgun og segir fyrirsögnina villandi. Hún sé til þess gerð að skapa storm í vatnsglasi.
Fréttin fjallaði um að tíunda boðorðið hafi verið fellt niður og nú væru fermingarbörnunum í Garðasókn aðeins kennd boðorðin níu.
Jóna segir þetta ekki rétt, boðorðin tíu eru kynnt fyrir fermingarbörnunum, en til þess að létta þeim munnlega prófið þurfa þau ekki að læra það tíunda utanbókar. Þetta kemur fram í skriflegu svari frá Jónu um málið.
„Enda fjallar tíunda boðorðið um sama löst og það níunda; að girnast það sem aðrir eiga. Við lifum þó að því leiti í breyttu og bættu samfélagi síðan fyrir þrjúþúsund árum að konur og þrælar eru ekki talin til eigna við hlið búfénaðar og annarra þátta,“ að því er segir í svari Jónu.