„Það hefur verið hefð síðan ég byrjaði þarna að þjóðarleiðtogar ávarpi Evrópuráðsþingið um það bil þrisvar á þingviku en þær eru fjórum sinnum á ári,“ segir Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata og varaformaður Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins, sem í dag ræddi við Volódímir Selenskí, forseta Úkraínu, á fundi þingsins.
„Hann flutti mjög sterka ræðu um tengsl Evrópuráðsins og Úkraínu og viðraði þar möguleika á því að víkja Rússlandi úr Evrópuráðinu auk þess að ræða möguleikana á því að ráðið lýsti því yfir að ríkisstjórn Rússlands væri „terror regime“-ríkisstjórn og hvatti okkur til dáða í því,“ segir þingmaðurinn enn fremur.
Að ræðu Selenskís lokinni gafst Evrópuráðsfólki færi á að spyrja hann spurninga, „og ég var ein þessara tólf heppnu sem komust að“, segir Þórhildur og bætir því við að spyrjendur séu valdir eftir fyrirframákveðnum forsendum með hjálp tölvustýrðs algríms.
Hún ferðaðist sjálf til Úkraínu í sumar og hefur því fengið að kynna sér ástandið þar með eigin augum. „Mér finnst mjög mikilvægt að tryggja að þeir sem bera ábyrgð á stríðsglæpum verði látnir sæta ábyrgð á þeim, dregnir fyrir dóm og dæmdir. Úkraínumenn hafa unnið þrekvirki við að rannsaka marga þessara glæpa, þar eru starfandi samtök sem hafa lagt sig í hættu við að safna sönnunargögnum,“ segir Þórhildur frá.
„Auðvitað leggjum við mikla áherslu á að þetta fari fyrir Alþjóðlega sakamáladómstólinn en meginþunginn af öllum þessum fjölda mála liggur hjá úkraínskum dómstólum til að byrja með, öflun sönnunargagna og öll forvinnan og formsatriðin,“ heldur þingmaðurinn áfram.
Leggur hún þó áherslu á að réttarhöldin, þegar þar að kemur, verði hafin yfir allan vafa og ekki hægt að véfengja þau vegna aðkomu Úkraínumanna. „Þess vegna spurði ég Selenskí hvort hægt væri að eiga í einhvers konar alþjóðlegu samstarfi um þessi réttarhöld, „hybrid court“, sem er í raun blandað kerfi þar sem alþjóðlegir sérfræðingar aðstoða staðbundna dómstóla eða hafa einhvers konar eftirlit með starfi þeirra og hann virkaði mjög jákvæður gagnvart því.
Að lokum hafi Selenskí þakkað Þórhildi fyrir að koma til Úkraínu og verða þar með eigin augum vitni að gangi mála, mikilvægt væri að pólitískur stuðningur kæmi frá fólki sem séð hefði afleiðingar stríðsins með eigin augum.
„Ég vil byrja á því að þakka þér fyrir að hafa heimsótt Úkraínu í sumar, því það er afar mikilvægt, þegar um pólitískan stuðning er að ræða, að koma og sjá með eigin augum, ekki aðeins höfuðborgina heldur þau svæði sem hafa verið yfirgefin af rússneskum hersveitum. Að sjá afleiðingar þess sem Rússland hefur gert,“ sagði Selenskí meðal annars í samtali sínu við Þórhildi Sunnu Ævarsdóttur í dag.