Auður aldrei axlað ábyrgð

Tónlistarmaðurinn hefur nýlega gefið út tvö lög við misjafnar undirtektir.
Tónlistarmaðurinn hefur nýlega gefið út tvö lög við misjafnar undirtektir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Tónlistarmaðurinn Auðunn Lúthersson, betur þekktur sem Auður, hefur ekki axlað ábyrgð á gjörðum sínum þrátt fyrir að hafa viðurkennt að hafa farið yfir mörk í samskiptum við konur. Þetta segja Thelma Tryggvadóttir, Ýr Guðjohnsen og Katla Ómarsdóttir en þær stigu nýlega fram í hlaðvarpsþættinum Eigin konur. 

Allar hafa þær reynslu af samskiptum við manninn, ein segir hann hafa verið ógnandi, önnur segir hann hafa brotið á sér og sú þriðja segir hann hafa látið sig gera hluti sem hún vildi ekki.

Stundin fjallar um málið og ræðir jafnframt við tvær konur til viðbótar sem lýsa áreitni af hálfu tónlistarmannsins. Önnur segist hafa verið fimmtán ára þegar Auðunn hafi fyrst haft samband við hana, hún á lokaárinu sínu í grunnskóla en hann var 25 ára.

Fram kemur í umfjöllun Stundarinnar að Auðunn hafi ekki viljað bregðast við frásögnum kvennanna þegar eftir því var leitað.

Leitað til Stígamóta og í áfallameðferð

Konurnar þrjár sem komu fram í hlaðvarpinu hafa allar glímt við afleiðingar vegna þessara atburða og hafa m.a. leitað til Stígamóta og til sérfræðings fyrir áfallameðferð. Þá segjast þær aldrei hafa fengið afsökunarbeiðni frá Auði.

Þær eru ósáttar við hvernig hann hefur nú stigið fram í sviðsljósið á nýjan leik og jafnframt óánægðar út í tónlistarmennina sem hafa sýnt honum stuðning og tekið þátt í endurkomu hans, m.a. með því að gefa út lög með honum.

Fór yfir mörk en braut ekki af sér

Tónlistarmaðurinn Auður hefur nýlega stigið aftur í sviðsljósið eftir að hafa dregið sig í hlé í kjölfar fjölda ásakana á hendur honum á síðasta ári.

Fyrr á árinu birtist umdeilt viðtal við Auðun í Íslandi í dag, þar sem hann tók fyrir ásakanirnar sem á hann voru bornar og neitaði því að hafa brotið af sér kynferðislega. Þá vakti hann m.a. athygli á því að hann hefði aldrei verið kærður eða yfirheyrðir vegna þessara mála.

„Sær­andi og óþægi­leg, ég hef verið að fara yfir mörk og ég hef verið meiðandi í minni hegðun. Ég hef ekki gert mér al­menni­lega grein fyr­ir henni ég samt ber al­gjör­lega ábyrgð á henni,“ sagði Auðunn en tók þó fram að það hafi aldrei verið ætlun hans að vera særandi, dónalegur eða óþægilegur.

Var viðtalið í samræmi við yfirlýsingu sem hann gaf út í júní á síðasta ári þar sem hann sagðist hafa farið yfir mörk einnar konu án þess að átta sig á því fyrr en síðar þegar þau ræddu saman.

Reynt að bjarga sér

Konurnar segja Auðun aldrei hafa axlað ábyrgð í viðtalinu og lýsir ein því yfir að hann hefði bara verið að „reyna að bjarga sér.“ Kalla þær eftir því að tónlistarmaðurinn taki fulla ábyrgð á gjörðum sínum.

Konurnar segja viðtalið í Íslandi í dagi hafi verið þeim áfall þá sagðist ein hafa verið mjög brugðið að sjá hann í sjónvarpinu. Upplifðu þær jafnframt að rödd þeirra hafi ekki fengið að heyrast. 

„Þetta er fokking þvæla, mig langar bara að öskra,“ segir Thelma Tryggvadóttir.

Konurnar urðu þá ekki síður fyrir vonbrigðum með athugasemdirnar sem birtust við viðtalið þar sem að fólk lýsti yfir stuðningi við tónlistarmanninn og þótti hann einlægur og trúverðugur.

„Við erum ekki bara þrjár“

Ýr Guðjohnsen segir Auðun bara hafa gengist við því sem hann komst ekki hjá að gangast við.

„En það er svo miklu dýpra og svo miklu meira og svo miklu fleiri. Eins og fyrst, þá kom ég fram, og hann birtir þá yfirlýsingu á Instagram og segir: Já, ég fór yfir mörk hjá einni konu. Svo komu fleiri fram og þá fer hann í viðtal og segir: Já, ég fór yfir mörk hjá þremur konum. Maður verður svo reiður fyrir hönd hinna. Maður er ekki bara einn, og við erum ekki bara þrjár.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert