„Með því að læsa vefnum getum við leyft okkur að leggja meiri vinnu í hann og fáum meira rými til að búa til efni sem þar á heima,“ segir Gunnlaug Birta Þorgrímsdóttir, vefritstjóri héraðsfréttablaðsins Skessuhorns á Vesturlandi.
Í lok mánaðarins verður vefurinn skessuhorn.is gerður að áskriftarvef. Er Skessuhorn fyrsta héraðsfréttablaðið hér á landi sem gerir þessa tilraun.
Sala áskrifta að héraðsfréttablaðinu Skessuhorni hefur verið aðaltekjuliður fyrirtækisins frá því blaðinu var breytt í áskriftarblað, skömmu eftir stofnun þess fyrir nærri aldarfjórðungi. Samhliða útgáfu hefðbundins blaðs hefur Skessuhorn haldið úti opnum fréttavef.
Gunnlaug segir að mikil vinna hafi verið lögð í vefinn, þar birtar fréttir og ágrip af viðtölum úr blaðinu og þannig reynt að gefa fólki nasasjón af því sem er í Skessuhorni hverju sinni. Vefurinn hafi aldrei skilað neinum tekjum.
Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í dag.