Landspítali hefur fundið fyrir vöntun á almennum og sértækum lækninga- og hjúkrunarvörum. Hingað til hefur tekist að útvega staðkvæmdarvöru þannig að vöntunin hefur hvorki háð starfsemi spítalans né ógnað öryggi sjúklinga. Þetta kemur fram í skriflegu svari Landspítala við fyrirspurn Morgunblaðsins.
Vöntun er á almennum og sérhæfðum lækninga- og hjúkrunarvörum, t.d. nálum, aðgerðapökkum og ýmsum gerðum af leggjum.
„Vissulega höfum við alltaf áhyggjur þegar aðfangakeðjan höktir. Eins og staðan er í dag ógnar það ekki heilsu sjúklinga Landspítala. Þegar vara er ekki til veldur það fyrst og fremst óþægindum og óöryggi. Þetta kallar á meiri vinnu hjá klínískum starfsmönnum, innkaupadeild, heilbrigðistæknideild og vöruhúsi,“ segir í svari spítalans.
Unnið er að því að tryggja vöruframboð. „Til að bregðast við vöntuninni hefur Landspítali óskað eftir því við birgja að þeir auki lagerinn hjá sér til viðbótar við umsaminn öryggislager.“
Nokkrar ástæður eru sagðar liggja að baki; afleiðingar Covid, stríðið í Úkraínu en einnig ný evrópsk lækningatækjareglugerð sem tók gildi á síðasta ári. „Hún hefur valdið því að lækningatæki hafa verið að missa CE-merkinguna sína og því dottið tímabundið út af markaði.“
Öll Evrópulöndin glíma því við þetta sama vandamál og er það sagt flækja málin enn frekar að allir séu að leita að sömu vörunni.
„Innkaupadeild þekkir markaðinn vel og reynir að bregðast hratt við yfirvofandi vöruskorti. Landspítali hefur mikla reynslu í að bregðast hratt við óvæntum breytingum á markaðnum. Sú reynsla mun nýtast í núverandi umhverfi,“ segir að lokum.