Eldstöðin í Grímsvötnum í Vatnajökli nálgast það að vera tilbúin fyrir eldgos miðað við það hvernig hún hefur hagað sér undanfarna áratugi, að sögn sérfræðings á sviði jarðskorpuhreyfinga.
Jarðvísindamenn fylgjast nú grannt með Grímsvötnum en ekki er óalgengt að eldgos fylgi í kjölfar hlaupa. Það gerðist síðast árið 2004.
Lítið hlaup hefur runnið í Gígjukvísl úr Grímsvötnum síðustu daga. Hefur rennslið þar varla náð sama krafti og yfir sumartímann og er því lítil hætta talin stafa af því.
„Hlaupið sjálft er ekki það sem við erum fyrst og fremst að horfa á sem áhyggjuefni heldur mögulega hvort að þrýstingsléttirinn hafi áhrif á eldstöðina,“ segir Benedikt Gunnar Ófeigsson, sérfræðingur á sviði jarðskorpuhreyfinga hjá Veðurstofunni.
Að sögn Benedikts er eldstöðin nálægt því að vera tilbúin að gjósa. Kvikuþrýstingurinn sé orðinn nægur til þess að þrýstingsléttirinn sem verður við lok hlaupsins gæti komið eldgosi af stað.
„Þetta er svolítið eins og að opna kókflösku,“ segir Benedikt en bætir þó við að með minna hlaupi fylgi hægari þrýstingsléttir.
„Hún er ekkert alveg á ystu mörkum en við vitum náttúrlega aldrei alveg. En hún er náttúrlega komin í svipaða stöðu eins og fyrir síðasta gos, plús mínus einhver ár jafnvel. Þetta er ekki svona nákvæmt en maður er alltaf með augun á Grímsvötnum þegar það kemur hlaup og hún er í þessari stöðu,“ bætir hann.
Líkt og með önnur eldgos mun einhver aðdragandi eiga sér stað, gosórói og aukin skjálftavirkni, sem mun gefa til kynna að eldsumbrot séu að hefjast.
„Og mögulega aflögun líka, hún getur fylgt með áður en kvikan kemur upp á yfirborð. Það eru nokkur kerfi sem við horfum betur á og fylgjumst sérstaklega vel með á meðan að hlaupið er að klárast.“