Fær ekki bætur eftir að hafa hjólað á kanínu

Kanínur leynast í Elliðaárdalnum.
Kanínur leynast í Elliðaárdalnum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Tryggingafélagið Sjóvá var sýknað í Héraðsdómi Reykjavíkur í síðasta mánuði af bótakröfu manns sem lenti á gjörgæsludeild eftir að hafa hjólað á kanínu í Elliðaárdalnum og lent á tré. 

Krafðist maðurinn þess að viðurkennd yrði skaðabótaskylda úr ábyrgðatryggingu borgarinnar hjá Sjóvá-Almennum tryggingum hf. vegna líkamstjóns sem hann varð fyrir í slysinu. Þá krafðist hann einnig málskostnaðar.

Taldi maðurinn aðstæður á hjólastígnum hafa verið óforsvaranlegar og að rekja mætti slysið til nokkurra þátta sem hægt hefði verið að bregðast við, til að mynda með betri lýsingu á slysstað. Þá hafi borgaryfirvöld í mörg ár verið meðvituð um kanínufaraldur á svæðinu en ekki aðhafst fyrr en eftir slysið og fjölmiðlaumfjöllun í kjölfar þess.

Sjóvá, tryggingafélag Reykjavíkur, hafnaði skaðabótaskyldu og taldi að um óhappatilviljun hefði verið að ræða eða gáleysi mannsins. Þá taldi tryggingafélagið ósannað að kanína hafi valdið slysinu, þá geti sveitarfélag ekki borið ábyrgð á háttsemi kanína frekar en annarra villtra dýra.

Fluttur með sjúkrabíl á bráðamóttöku

Slysið átti sér stað árið 2016 um klukkan átta að morgni í Elliðaárdal þegar að maðurinn var á leið til vinnu. Samkvæmt lýsingum mannsins af málsatvikum þá hjólaði hann á kanínu, datt af reiðhjólinu og lenti á tré.

Vegfarandi sem átti leið hjá hringdi á sjúkrabíl og var maðurinn fluttur á bráðamóttöku.

Í lögregluskýrslu um málið segir að maðurinn hafi misst stjórn á reiðhjóli sínu og hjólað beint á tré. Þá segir einnig að reiðhjólastígurinn hafi verið blautur en að annað hafi ekki verið athugavert við stíginn. Þá á reiðhjólið að hafa verið í fínu standi.

Í bráðamóttökuskrá segir að maðurinn hafi strax fundið fyrir miklum verkjum, þar með talið brjóstholi og hægri öxl. Kom í ljós að lunga hans hafði fallið saman, annað herðablað brotnað, nokkur rifbein brotnað auk þess sem hann hafði hlotið áverka á hægri öxl. Maðurinn var lagður á gjörgæsludeild en var síðar fluttur á almenna deild.

Ófullnægjandi aðstæður

Að mati mannsins er hægt að rekja slysið til ófullnægjandi aðstæðna á slysstað og er það sveitarfélagið sem ber ábyrgð á aðstæðum á hjólreiðastígum borgarinnar. Taldi hann borginni skylt að tryggja öryggi vegfarenda. 

Sjóvá hafnaði þessi og taldi annað hvort að um óhappatilviljun hefði verið að ræða eða að slysið yrði rakið til gáleysis mannsins.

Héraðsdómur féllst ekki á kröfur mannsins þar sem ekki var talið að honum hefði tekist að sýna fram á að borgin bæri ábyrgð.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert