Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, hefur skipað Gerði Gestsdóttur sem formann flóttamannanefndar.
Hlutverk nefndarinnar er meðal annars að leggja til við ríkisstjórn heildarstefnu og skipulag á móttöku þeirra hópa flóttamanna sem stjórnvöld bjóða til landsins, hafa yfirumsjón með móttökunni og veita stjórnvöldum umsögn um einstök tilvik eftir því sem óskað er.
Gerður er mannfræðingur og sérfræðingur í málefnum innflytjenda og flóttafólks, að því er fram kemur á vef Stjórnarráðsins.
Hún hefur starfað innan málaflokksins síðan upp úr aldamótum, sem verkefnastjóri fræðsludeildar Alþjóðahúss, verkefnastjóri félagslegra verkefna hjá Þróunarsamvinnustofnun Íslands í Níkaragva og ráðgjafi innflytjenda hjá Vinnumálastofnun, auk þess að starfa sjálfstætt við rannsóknir, fræðslu, þýðingar og túlkun. Í dag starfar hún sem málstjóri í samræmdri móttöku flóttafólks hjá Reykjavíkurborg.