Tillögur að seinni áfanga hins nýja miðbæjar með gamla laginu á Selfossi voru kynntar á opnum íbúafundi á Selfossi í gærkvöld, en þar ræðir um fjórum sinnum meiri byggð en í fyrri áfanganum.
Miðbæjarverkefnið hefur þótt afar vel heppnað til þessa og hleypt nýju lífi í Selfoss, þennan höfuðstað Suðurlands í þjóðbraut.
Frá því hafist var handa við verkefnið hafa tillögur um seinni áfangann tekið nokkrum breytingum, sem rétt þótti að kynna bæjarbúum áður en lengra væri haldið.
„Við höfum lært mikið af reynslunni af þessu fyrsta ári í rekstrinum í nýja miðbænum og höfum gert ákveðnar breytingar á öðrum áfanga sem kalla á deiliskipulagsbreytingu,“ segir Leó Árnason, stjórnarformaður Sigtúns, sem hefur veg og vanda af verkefninu, en hann og Sigurður Einarsson arkitekt höfðu framsögu á fundinum.
Leó segir að reynslan af fyrri áfanganum hafa breytt ýmsu um hvernig rétt væri talið að haga þeim seinni. Þannig var fallið frá byggingu miðaldakirkju í útjaðrinum, en hins vegar verða tvö hótel í nýja miðbænum gangi allt eftir.
Í þessum seinni áfanga verða hús frá öllum landshlutum, sum þeirra vel þekkt. Meðal áhugaverðra húsa sem leika munu lykilhlutverk í seinni áfanganum eru t.d. gamla Selfossbíó, Hótel Ísland, Hótel Oddeyri og Evanger-hús frá Siglufirði.