Lögregla stöðvaði ökumann í tvígang fyrir ölvunarakstur á sama klukkutímanum í dag. Þegar maðurinn var stöðvaður í fyrra skiptið kom í ljós að hann var réttindalaus. Málið var þá klárað með vettvangsskýrslu að því er fram kemur í dagbók lögreglu. Um 20 mínútum síðar var maðurinn svo aftur stöðvaður á sama bíl og kærður á ný fyrir ölvunarakstur.
Lögregla upplýsir þá í dagbók sinni að einstaklingur hafi verið handtekinn með mikið magn fíkniefna á sér og sömuleiðis mikið af reiðufé. Viðkomandi var í „ólöglegri dvöl í landinu,“ eins og lögregla orðar það í stuttri orðsendingu en klykkt var út með að hann hefði verið „vistaður“.