Stutt í að hlaupið nái hámarki

Flogið yfir Vatnajökul, en í forgrunni sjást Grímsvötn og þverhníptir …
Flogið yfir Vatnajökul, en í forgrunni sjást Grímsvötn og þverhníptir hamrar Grímsfjalls. mbl.is/RAX

Búist er við að hlaupið úr Grímsvötnum nái hámarki síðar í dag en að sögn náttúruvársérfræðings hjá Veðurstofu Íslands er „mjög stutt í það“. Ætti flóðatoppurinn að koma fram á sama tíma og vötnin ná að tæma sig. 

„Það er mjög lítil breyting frá því í gær. Það heldur áfram að vaxa í Gígjukvísl. Það er komin 45 sentímetra hækkun á vatnshæðinni sem getur verið dempuð þar sem það er lón sem dempar vatnsmagnið og vítt flæmi undir brúnni,“ segir Salóme Jórunn Bernharðsdóttir, náttúruvársérfræðingur í samtali við mbl.is.

Íshellan yfir Grímsvötnum hefur nú sigið um a.m.k. 13 metra þar sem mælirinn er staðsettur og er ekki búist við að hann mæli frekara sig þrátt fyrir að vötnin hafi ekki náð að tæma sig alveg.

Fylgjast með hvernig Grímsvötn bregðast við

Eins og áður hefur komið fram er hlaupið sem stendur núna yfir ekki talið stórt enda svipar rennslið til þess sem er yfir sumartímann. Þá er ekki talið að það muni hafa nein áhrif á mannvirki.

„Það sem við erum aðallega að fylgjast með er hvernig Grímsvötn bregðast við,“ segir Salóme en hún hefur áður sagt að þrýstingsléttirinn sem verður á eldstöðinni þegar vötnin tæmast gæti virkað eins og gikkur.

Fylgjast með skjálftavirkni

Jarðskjálfti af stærðinni 2 mældist nálægt Grímsvötnum seint í gær. 

„Það gæti vel verið tengt þessu. Við þurfum bara að fylgjast með því. Þetta er ekki komið á það stig enn þá að við séum farin að hafa miklar áhyggjur,“ segir Salóme.

Þegar skjálftavirknin er farin að aukast töluvert þurfi að fylgjast betur með.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert