Uppfylla eðli málsins samkvæmt ekki skilyrði

Bryndís Haraldsdóttir er formaður allsherjar- og menntamálanefndar.
Bryndís Haraldsdóttir er formaður allsherjar- og menntamálanefndar. mbl.is/Arnþór

Bryndís Haraldsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður allsherjar- og menntamálnefndar, segir að eðli málsins samkvæmt uppfylli enginn sem Alþingi veitir íslenskan ríkisborgararétt, stjórnsýsluleg skilyrði um ríkisborgararétt. Ef viðkomandi einstaklingar uppfylltu skilyrðin færu þeir í gegnum Útlendingastofnun, ekki Alþingi.

Undirnefnd sem fer yfir umsóknirnar hverju sinni hefur ákveðið svigrúm til að meta og ákveða hver það eru sem Alþingi veitir ríkisborgararétt.

Tvær leiðir eru til að fá íslenskan ríkisborgararétt, annars vegar í gegnum stjórnsýslumeðferð hjá Útlendingastofnun, og hins vegar í gegnum Alþingi, að uppfylltum þeim skilyrðum að umsagnir hafi borist frá Útlendingastofnun og yfirleitt lögreglu.

„Þar eru engin skilyrði fyrir því hvað þingið getur gert enda er þingið allsráðandi í því,“ segir Bryndís í samtali við mbl.is.

Ber mikið traust til þeirra vinnu

Greint var frá því í Morgunblaðinu í dag að dómsmálaráðuneytið teldi ýmsa annmarka á afgreiðslu umsókna um ríkisborgararétt. Vísaði ráðuneytið meðal annars til þess að aðeins hefðu tveir af tólf sem Alþingi veitti ríkisborgararétt í júní hefðu uppfyllt búsetuskilyrði.

Þá hafi biðtími vegna brota ekki verið liðinn í einu tilviki og að öðru tilviki hafi einstaklingur verið á boðunarlista Fangelsismálastofnunar. Dómsmálaráðuneytið hefur farið þess á leit við allsherjar- og menntamálnefnd að funda með fulltrúum ráðuneytisins um málefni umsækjenda um íslenskan ríkisborgararétt.

Hnappur er á vef Útlendingastofnunar þar sem hægt er að velja að senda inn umsókn um ríkisborgararétt til Alþingis. En þriggja manna undirnefnd allsherjar- og menntamálanefndar fær umsóknirnar í hendurnar og fer yfir þær.

Bryndís situr sjálf ekki í undirnefndinni en hana skipa Birgir Þórarinsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sem fer fyrir nefndinni, Jódís Skúladóttir, þingmaður VG, og Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, þingmaður Pírata.

„Þau eru það fólk sem hefur farið í gegnum allar umsóknir og umsagnir. Ég veit að þau hafa þurft að halda marga fundi í kringum það og farið vel yfir þetta og ég ber mikið traust til þeirra og þeirra vinnu. Þau telja að þessir aðilar sem þau leggja til fyrir nefndina og nefndin hefur svo lagt fyrir Alþingi, séu þess verðugir að fá íslenskan ríkisborgararétt.“

Allt mjög matskennt

Samkvæmt lögum þurfa þeir einstaklingar í raun ekki að uppfylla nein skilyrði, að sögn Bryndísar, en horft sé til ýmissa þátta.

„En þau horfa í það að viðkomandi sé ekki með neinn afbrotaferil og að viðkomandi uppfylli eitthvað af þeim skilyrðum sem sett eru fram. Og að þau færi fyrir því rök af hverju telji sig þurfa íslenskan ríkisborgararétt eða vilja íslenskan ríkisborgararétt. En auðvitað eru þetta allt mjög matskennt og hefur þróast í gegnum árin. Hver og ein undirnefnd sem vinnur með þessar umsóknir hefur bara haft ákveðið svigrúm á hverju ári eða á hverju kjörtímabili.“

Bryndís tekur þó fram að lögin séu ekki mjög skýr hvað þessi mál varðar. „Ef þú spyrð mig þá er þetta kerfi sem er úr sér gengið og við þurfum að endurskoða.“

Mjög skiptar skoðanir á fyrirkomulaginu

Hún vísar til þess að töluverð umræða hafi verið um það á síðasta þingi þar sem umsagnir um umsóknirnar hafi borist seint og illa frá Útlendingastofnun.

„Það hefur verið ákveðin kergja á milli þings og stofnunarinnar um það, afhendingu á þeim og hversu langan tíma það hefur tekið. Mín persónulega skoðun er að við þurfum að endurskoða þetta og gera þetta með öðrum hætti. Það er undirnefnd að störfum, sem ég stýri, sem er að fara yfir hvaða möguleikar eru í stöðunni. Hvernig væri hægt að gera þetta öðruvísi. Enn sem komið er eru mjög skiptar skoðanir á því hvernig þessu er fyrirkomið.“

Alþingi samþykkir yfirleitt að veita þeim ríkisborgarétt sem nefndin leggur til en Bryndís segir alltaf einhverja greiða atkvæði gegn tillögunum eða sitja hjá á þeim forsendum að verið sé að mótmæla aðferðarfræðinni eða því að þingið sé yfir höfuð að veita ríkisborgararétt.

Umsóknum um ríkisborgararétt í gegnum Alþingi hefur farið fjölgandi, en þeim sem fá íslenskan ríkisborgararétt á þann hátt hefur ekki fjölgað í takt við það. Heldur farið fækkandi ef eitthvað er.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert