Björn Bjarnason, fyrrverandi dómsmálaráðherra og þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sakar Arndísi Önnu Kristínardóttur Gunnarsdóttur, þingmann Pírata, um að grípa til óheiðarleika til að þagga niður í þeim sem ræða útlendingamál á öðrum forsendum en hún kýs að gera. Björn segir veruleikann mun kaldari og grimmari.
Björn heldur því fram að þetta hafi Arndís Anna gert í umræðum um útlendingamál sem fóru fram á Alþingi í vikunni.
Björn bendir á að í upphafi vikunnar hafi Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra lagt fram enn á ný fram frumvarp um breytingar á landamæravörslu sem snúa að Schengen-aðildinni. Hann segir jafnframt, að í umræðum um frumvarpið hafi Arndís Anna verið full tortryggni.
„Allur málflutningur hennar gengur út á að fordæma landamæravörslu og gera allt tortryggilegt sem dómsmálaráðherra segir og snertir raunverulega stöðu útlendingamála hér og annars staðar,“ skrifar Björn í pistli sem er að finna á vefsíðu hans.
Björn segir að í ræðu á þingi 11. október hafi Arndís Anna sakað Jón um að gefa til kynna að fólk sem hingað kæmi væri „upp til hópa óheiðarlegt, ekki hingað komið til að vinna og vera þátttakendur í samfélaginu og jafnvel hættulegt“.
Þá sagði hún: „Þetta er alvarlegt mál upp á líf og dauða fjölskyldna sem eru venjulegt fólk eins og við.“
Björn segir ekkert í ræðum dómsmálaráðherra sé réttmætt að túlka á þennan hátt.
„Arndís Anna grípur til óheiðarleika til að þagga niður í þeim sem ræða útlendingamál á öðrum forsendum en hún kýs að gera. Veruleikinn er einfaldlega mun kaldari og grimmari en hún vill vera láta. Hann breytist ekki við að vilja ekki sjá það,“ skrifar Björn.