Vilja þjóðarátak gegn verðbólgu

Frá fundi trúnaðarmanna í gær.
Frá fundi trúnaðarmanna í gær. Ljósmynd/Aðsend

Sjúkraliðafélag Íslands kallar eftir þjóðarátaki gegn verðbólgu og minnkandi kaupmætti í ályktun sem var samþykkt að loknum fjölmennum fundi trúnaðarmanna félagsins í gær.

Fram kemur að forgangsatriði í næstu kjarasamningum sé að verja kaupmátt launa. Launagreiðendur, þar með talið ríkisvaldið, þurfi að tryggja að bætt verði fyrir kaupmáttarrýrnun almennings.

„Vegna hárrar verðbólgu hefur kaupmáttur launafólks rýrnað umtalsvert. Launin duga því skemur en áður og kemur kaupmáttarrýrnunin verst niður á þeim sem lægst hafa launin. Verðbólgan er hinn forni fjandi Íslendinga sem samfélagið allt verður að berjast gegn. Sjúkraliðafélag Íslands kallar því eftir þjóðarátaki gegn verðbólgu og minnkandi kaupmætti,“ segir í ályktuninni.

Stjórnvöld sem starfi í umboði almennings komi að gerð kjarasamninga með bætt lífsgæði og lífskjör almennings í forgrunni.

Ljósmynd/Aðsend

Á fundinum var einnig ályktað um endurmat á virði hefðbundinna kvennastétta.

„Trúnaðarmannaráð Sjúkraliðafélags Íslands ályktar um mikilvægi næstu kjarasamninga til leiðréttingar launa „kvennastétta“.  Samkvæmt fyrirliggjandi rannsóknum er það ljóst að störf sem unnir eru af meirihluta til af konum eru mun ver launuð en hefðbundin karlastörf, þrátt fyrir margra ára fögur fyrirheit um leiðréttingu,“ segir í ályktuninni.

Krefjast trúnaðarmennirnir þess að í komandi kjarasamningum verði samstaða allra aðila um að „leiðrétta þennan ósanngjarna launamun“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert