Ekki er vitað til þess að flóttafólk frá Úkraínu hafi endað á götunni eftir dvöl þeirra í húsnæði á vegum Vinnumálastofnunar. Þó heyra stjórnvöld af og til af því að flóttafólki frá Úkraínu sé heimilislaust en alltaf er kannað hvort fótur sé fyrir því. Hingað til hefur svo ekki verið.
Gylfi Þór Þorsteinsson, aðgerðastjóri teymis um móttöku flóttafólks frá Úkraínu, segir það hafa reynst mörgum erfitt að finna húsnæði en það takist þó að lokum hjá öllum.
„Við vitum að það hefur reynst sumum erfitt og þá hafa viðkomandi aðilar fengið að dvelja aðeins lengur í úrræðum Vinnumálastofnunar, en svo hefur það tekist hjá öllum sem við vitum af að lokum,“ segir Gylfi í samtali við mbl.is.
„Hins vegar getur vel verið að fólk missi húsnæði sitt af einhverjum ástæðum seinna meir og þurfi að útvega sér nýtt, en við vitum ekki til þess að einhver af flóttafólkinu sé á götunni,“ bætir Gylfi við.
Ef fólk missir húsnæði sitt getur það þó ekki snúið aftur í húsnæði á vegum Vinnumálastofnunnar.
Gylfi bendir á að úkraínska samfélagið hér á landi sé orðið fjölmennt og segir Úkraínumenn hjálpa hvor öðrum þegar erfiðar aðstæður koma upp. „Eftir því sem við best vitum hafa allir náð að bjarga sér,“ segir Gylfi.
Annað slagið heyra stjórnvöld af því að flóttafólk frá Úkraínu sé heimilislaust. Gylfi segir að alltaf sé kannað hvort fótur sé fyrir því.
„Við heyrum af þessu annað slagið. Þá látum við kanna það en hingað til hefur ekki reynst fótur fyrir því, sem betur fer.“