Fjórði hver nemandi í 6. bekk tilkynnt einelti

Einelti í elstu bekkjum grunnskóla landsins virðist hafa aukist síðustu …
Einelti í elstu bekkjum grunnskóla landsins virðist hafa aukist síðustu ár. mbl.is/Kristinn Magnússon

Einelti í elstu bekkjum grunnskóla landsins hefur aukist töluvert síðustu ár ef marka má niðurstöður kannanna sem nemendur taka þátt í. Umhugsunarvert þykir að aukningin virðist vera í takt við tilkomu ákveðinna samfélagsmiðla sem gæti verið merki um tengsl þar á milli. Ómögulegt er þó að sanna slíkt orsakasamband.

Þetta segir Kristján Ketill Stefánsson, lektor við menntavísindasvið Háskóla Íslands. Hann hélt nýlega erindi á Menntakviku þar sem hann fór yfir niðurstöður rannsóknar sinnar þar sem hann bar saman gögn úr Íslensku æskulýðsrannsókninni og Skólapúlsinum við erlendar rannsóknir.

Kristján Ketill Stefánsson, lektor við menntavísindasvið.
Kristján Ketill Stefánsson, lektor við menntavísindasvið. Ljósmynd/Aðsend

Mikill meirihluti nemenda í 6., 8. og 10. bekk á Íslandi svöruðu könnununum, eða um þrjú þúsund í hverjum árgangi. Bentu niðurstöður beggja kannana til þess að tilkynnt einelti hefði aukist töluvert í þessum árgöngum á síðustu fimm skólaárum. 

Var tilgangur rannsóknarinnar að skoða hvort greina mætti aukningu á tilkynntu einelti í grunnskólum á síðustu árum í ljósi aukins málafjölda hjá bráðateymi Barna- og unglingageðdeildar (BUGL). Þar hefur málum fjölgað um 25% á árunum 2019 – 2021 og eru flest málanna tilkomin vegna alvarlegrar sjálfsskaða- eða sjálfsvígshættu. 

Fjórðungur í 6. bekk tilkynnt að hafa orðið fyrir einelti

Um fjórðungur nemenda í 6. bekk hafa tilkynnt að hafa orðið fyrir einelti síðasta skólaár og hefur það aukist um fjögur til fimm prósentustig frá árinu 2018. 

Kristján Ketill segir niðurstöður Skólapúlsins og Íslensku æskulýðsrannsóknarinnar samhljóða í þessum niðurstöðum.

Þegar mælingar fyrir 10. bekk eru aftur á móti skoðaðar er aðeins meiri munur milli kannanna. Samkvæmt Skólapúlsinum hafa um 8% tilkynnt einelti í 10. bekk á síðasta skólaári en samkvæmt Íslensku æskulýðsrannsókninni hafa um 14% tilkynnt einelti.

Telur Kristján að ástæðuna megi rekja til þess að sterkara orðalag sé notað í Skólapúlsinum þegar spurt var um eineltið.

Engu að síður þá benda mælingar í sömu átt, tilkynningum um einelti hafi aukist frá fyrri könnunum.

Einelti eykst sama ár og Snapchat byrjar

Að sögn Kristjáns sýna mælingarnar jafnframt umhugsunarverða mynd þegar þær eru skoðaðar í samhengi við samfélagsmiðlanotkun. 

„Einelti byrjar að aukast í íslenskum grunnskólum árið 2012 sem er á sama tíma og Snapchat er stofnað og opnar fyrir valmöguleikann að senda myndskeið sem hverfa,“ segir Kristján.

Tilkynningum um einelti fjölgaði jafnt og þétt fram til ársins 2015 samhliða því sem snjallsímaeign og netnotkun fer að aukast. Þá tók tilkynningunum aftur að fjölga árið 2017, sem er jafnframt árið sem að TikTok er stofnað.

Erfitt að sanna orsakasamband

Kristján segir ómögulegt að sanna að notkun samfélagsmiðlanna orsaki meira einelti. 

„Það væri ekki hægt að gera samanburðartilraunir sem gætu fullyrt um slíkt orsakasamband,“ segir hann en bætir þó við að þetta sé þó umhugsunarverður samanburður.

Kristján mun verða með erindi á Þjóðarspeglinum föstudaginn 28. október þar sem málstofa verður um unglinga og samfélagsmiðla. Þar verður kafað dýpra í möguleg tengsl notkunar samfélagsmiðla og dalandi sjálfsálits unglinga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka