Gular viðvaranir taka gildi um hádegi

Gul viðvörun tekur gildi klukkan ellefu í dag á Vestfjörðum og breiðir svo úr sér eftir því sem líður á daginn yfir á Strandir og Norðurland vestra og svo Norðurland eystra. Viðvaranir eru í gildi þangað til á hádegi á morgun.

Gert er ráð fyrir því að það gangi í hvassa norðanátt seinni partinn með talsverðri úrkomu á Norður- og Austurlandi næsta sólarhringinn og versnandi akstursskilyrðum vegna snjókomu og takmarkaðs skyggnis á fjallvegum.

Reikna má með snörpum vindstrengjum við fjöll sunnan- og vestanlands. Veður gengur svo smám saman niður eftir hádegi á morgun, að segir í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofu Íslands. Hiti verður á bilinu 1 til 8 stig næstu daga, hlýjast sunnanlands.

Á þriðjudag og miðvikudag verður suðvestlæg átt ríkjandi og fer þá heldur hlýnandi. Þá verður skýjað en úrkomulítið vestantil á landinu, en bjart fyrir austan.

Lægð myndast svo vestur af landinu á fimmtudag með sunnanátt og rigningu vestanlands. Útlit fyrir norðanátt á föstudag með úrkomu aðallega fyrir norðan og kólnandi veður.

Veðurhorfur næstu daga:

Á mánudag:
Breytileg átt 3-8 m/s. Skýjað, en birtir til er líður á daginn norðantil. Bjart sunnanlands. Hiti 1 til 9 stig, hlýjast sunnanlands.

Á þriðjudag og miðvikudag:
Suðvestanátt og skýjað vestanlands, en bjart austantil. Hiti 3 til 8 stig yfir daginn.

Á fimmtudag:
Stíf sunnanátt með rigningu eða súld vestanlands, en björtu veðri fyrir austan. Heldur hlýnandi í bili.

Á föstudag:
Útlit fyrir norðanátt með snjókomu eða slyddu á Vestfjörðum, dálítil rigning eða slydda á Norður- og Austurlandi, en allvíða bjartviðri syðra. Kólnandi veður.

Veður á mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka