Sigurður Kristinsson, sem hefur verið fastur á sjúkrahúsi á Spáni frá því í ágúst, er kominn heim til Íslands og dvelur nú á sjúkrahúsinu á Akureyri.
„Þau á sjúkrahúsinu eru búin að fylgjast vel með og voru alveg undirbúin fyrir þetta allt saman og þegar hann kemur þarf hann ekki að fara í gegnum bráðadeildina eins og flestir, heldur fer hann beint inn á lyflækningadeild og er síðan sendur í öll þau próf og þær rannsóknir sem þarf, þannig að hann fær mjög góða aðhlynningu,“ segir Björg Unnur, dóttir Sigurðar, í samtali við mbl.is.
Fljótlega mun hefjast vinna með talmeinafræðingi, sjúkraþjálfara og iðjuþjálfara, auk þess sem Sigurður fær sálræna aðstoð.
„Flugferðin sjálf hafði svolítil áhrif á líðan pabba, en læknir og hjúkrunarfræðingur voru um borð og tóku stjórnina og ekki hægt að segja annað en að það hafi í sjálfu sér gengið ágætlega.“
Sigurður fékk heilablóðfall þann 12. ágúst sem varð meðal annars til þess að hann lamaðist vinstra megin á líkamanum. Hann flaug heim til Akureyrar með sjúkraflugi á miðvikudag með annarri dóttur sinni, Rúnu Kristínu, ásamt lækni og hjúkrunarfræðingi.
„Allar þessar sýkingar og það sem hann var búinn að ganga í gegnum, það er allt á góðum vegi, en heilablæðingin og það sem hún veldur, það á auðvitað eftir að koma í ljós og er langtíma vegferð. Það á eftir að koma í ljós hvað mun ganga til baka og hvort eitthvað muni gera það og auðvitað vonar maður það besta,“ segir Björg Unnur.
„Við erum voðalega glöð með það hvernig er tekið á móti honum hér.“
Björg Unnur er flugumferðarstjóri og var á vakt í flugturninum á Akureyri þegar faðir hennar flaug heim. Hún segir að tekist hafi að safna fyrir hluta af sjúkrafluginu, sem kostar rúmlega sex milljónir króna.
„Það er ekki allt komið, en við ákváðum að vera ekkert að bíða eftir því að vera búin að safna heldur tókum við lán fyrir því sem vantaði. Aðstandendur Gísla Finnssonar voru mjög rausnarlegir við okkur og lögðu mjög háa upphæð inn til að hjálpa okkur og það munaði rosalega mikið um það.
„Við þökkum öllum sem hafa lagt okkur lið og bara alveg með ólíkindum hve margir hafa lagt inn á okkur og hjálpað okkur við þetta, það er alveg ómetanlegt. Ef maður hefur eitthvað lært af þessu þá er það hvað fólk getur verið gott.“