Íslenska ferðaþjónustufyrirtækið Arctic Adventures hefur afbókað jöklaferðir sínar í Kötlujökul á morgun vegna þeirrar auknu skjálftavirkni sem mælst hefur í Mýrdalsjökli. Veðurstofa Íslands hefur varað við ferðum í jökulinn.
Gréta María Grétarsdóttir, forstjóri Arctic Adventures, segir í samtali við mbl.is að fyrirtækið eigi í góðu samstarfi við Veðurstofu Íslands og Almannavarnir. Segir hún fyrirtækið fylgjast vel með stöðunni.
„Við búum auðvitað á Íslandi og erum öllu vön. Hvort sem að það sé eldgos þarna eða einhvers staðar annars staðar þá erum við alltaf að meta stöðuna.“
„Það eru fleiri virkar eldsstöðvar þannig að við fylgjumst alltaf vel með hvað er að gerast í skjálftum, veðrum og vindi,“ bætir Gréta María við.