Einkunnaverðbólga meiri á höfuðborgarsvæðinu

Einkunnaverðbólga mælist hærri á höfuðborgarsvæðinu en úti á landi.
Einkunnaverðbólga mælist hærri á höfuðborgarsvæðinu en úti á landi. mbl.is/Hari

Nemendur í grunnskólum úti á landi gætu átt erfiðara með að komast inn í eftirsótta framhaldsskóla en nemendur með sömu kunnáttu á höfuðborgarsvæðinu. Ástæðan er sú að áhrif einkunnaverðbólgu í lokamati grunnskóla mælast hærri á höfuðborgarsvæðinu en annars staðar á landinu.

Þá virðist sem meiri einkunnaverðbólgu gæti meðal nemenda sem sækjast eftir inngöngu í eftirsóttari framhaldsskóla. 

Þetta sýna niðurstöður rannsóknar um einkunnaverðbólgu í lokamati grunnskóla á árunum 2016 til 2022, sem Bergrós Skúladóttir, meistaranemi í megindlegri sálfræði, stóð fyrir. 

Var verðbólgan m.a. mæld með því að bera saman lokaeinkunnir úr grunnskólum við niðurstöður úr samræmdum prófum og PISA-könnunum.

Bergrós Skúladóttir, meist­ara­nemi í meg­in­dlegri sál­fræði.
Bergrós Skúladóttir, meist­ara­nemi í meg­in­dlegri sál­fræði. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Greinilegri áhrif á höfuðborgarsvæðinu

Einkunnaverðbólga í grunnskólum landsins var orðin veruleg árið 2014 en til að stemma stigu við þeirri þróun var námsmatskerfið A-D tekið upp árin 2015/2016. Átti það kerfi að vera traustara gagnvart verðbólgunni, til dæmis vegna huglægni í mati kennara.

Þrátt fyrir það virðist einkunnaverðbólga hafa átt sér stað síðan þá en hún hefur þó ekki náð sömu hæðum og árið 2014.

Að sögn Bergrósar sýndu niðurstöðurnar marktæk einkunnaverðbólguáhrif fyrir allt landið. Það átti við bæði í summu lokamats í fimm námsgreinum og einnig í tölu nemenda með hæstu einkunn í þrem námsgreinum. Þegar landsbyggðin og höfuðborgarsvæðið voru aftur á móti skoðuð hvor í sínu lagi kom fram að áhrifin væru mun greinilegri á höfuðborgarsvæðinu.

Má því gera ráð fyrir að grunnskólar hafi áhrif á þá möguleika sem nemendur hafa á að komast inn í framhaldsskóla, óháð kunnáttu þeirra, að sögn Bergrósar.

Fleiri aukatímar þrátt fyrir hærri einkunnir

Sem hluti af rannsókninni tók Bergrós viðtal við skólastjórnendur Verzlunarskóla Íslands, sem er einn eftirsóttasti framhaldsskóli landsins.

Kom þar fram að þrátt fyrir að skólinn tæki sífellt inn nemendur með hærri meðaleinkunn þá virtist kunnátta þeirra ekki haldast í hendur við þá þróun. Þvert á móti hefðu kennarar þurft að bæta við fleiri aukatímum í stærðfræði til að mæta vaxandi þörf.

Rímar þetta við niðurstöður rannsóknarinnar þar sem fram kemur að einkunnaverðbólgan virðist meiri meðal nemenda sem sækjast eftir því að komast inn í eftirsóttari framhaldsskóla.

Að sögn Bergrósar eru mögulegar skýringar á þessari þróun m.a. þrýstingur sem nemendur og/eða foreldrar nemenda setja á kennara. Erfitt sé að staðhæfa það en erlendar rannsóknir bendi þó til þess.

Lengri taumur eftir Covid-takmarkanir

Þá segir Bergrós rannsóknin einnig hafa leitt í ljós kipp í einkunnaverðbólgu þegar að nemendur sneru aftur í skólastofur eftir að strangar takmarkanir á skólastarfi vegna Covid-19 liðu undir lok.

Virðist sem að kennarar hafi farið mýkri höndum um nemendur eftir að Covid-19 setti svip sinn á skólastarfið og að þeir hafi fengið lengri taum, að sögn Bergrósar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka