Ekki óhætt að fara í hellaskoðun í Kötlujökul

Veðurstofan fylgist grannt með virkninni.
Veðurstofan fylgist grannt með virkninni. mbl.is/RAX

„Eins og er þá erum við aðeins að sitja á okkur og bíða og sjá hvað í raun þetta þýðir. Þetta er svolítið hviðótt virkni. Það er full snemmt að segja til um hvort henni sé lokið eða ekki,“ segir Salóme Jórunn Bernharðsdóttir, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, í samtali við mbl.is um hina auknu skjálftavirkni sem hefur mælst í Mýrdalsjökli.

Að sögn Salóme er ekki hægt að úti­loka að þessi aukna skjálftavirkni sé fyrirvari jökulhlaups. Þá er einnig mögulegt að eldstöðin sé að minna á sig en sömuleiðis geti verið að um sé að ræða virkni sem vari í smá stund en fjari svo út.

Bera virknina saman við virknina árið 2011

„Við vorum að skoða í dag hvernig virknin í aðdraganda hlaupsins árið 2011 leit út. Það eru sum atriði sem eru að minna á sig en það er allskostar óvíst hvort þetta sé sama mynstrið að endurtaka sig eða hvort þetta sé einhver önnur virkni,“ segir Salóme.

Þá hefur Veðurstofan biðlað til fólks að fara ekki hellaskoðanir í Kötlujökul á meðan virknin er svona.

„Eins og staðan er núna þá sjáum við ekki alveg hvort þetta þýði jökulhlaup eða hvort þetta sé eldstöðin að minna á sig, eða hvað þetta sé hreinlega, en við erum að fylgjast vel með og það er full ástæða til að vara við því að fara í hellaskoðun í Kötlujökul á meðan þessu stendur. Ef eitthvað gerist þá er sá jökull alveg í beinni skotlínu og það má búast við að það verði mikil hreyfing þar og ekki óhætt að vera,“ segir Salóme.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert