Þrír fjórtán ára drengir sem voru handsamaðir í miðbæ Reykjavíkur í gær fyrir að ráðast á fólk á þremur stöðum, eru nú á vegum Barnaverndarnefndar.
Málið hefur vakið óhug, ekki síst vegna ungs aldurs drenganna og að þeir voru vopnaðir eggvopnum og spörkuðu í höfuð fórnarlamba eftir að hafa slegið þau í jörðina.
Litlar upplýsingar fengust frá lögreglu um málið, en þó kemur fram að fórnarlömbin voru ekki unglingar, heldur fullorðið fólk.
Lögreglan sagði að talað væri um þrjú fórnarlömb í málinu. Farið var með fórnarlömbin á bráðamóttöku þar sem gert var að meiðslum þeirra, sem ekki voru ekki talin mjög alvarleg. Ekkert þeirra þurfti að dvelja áfram á spítalanum.