Gagnrýnir framferði öryggisvarða

Pumpan hefur áður komist í gegnum öryggisleit.
Pumpan hefur áður komist í gegnum öryggisleit. mbl.is/​Hari

Árni Snævarr rithöfundur fer hörðum orðum um Isavia í pistli sem hann birti á Facebook-síðu sinni. Þar segist hann hafa orðið vitni að því að öryggisverðir á Keflavíkurflugvelli sýndu erlendum ferðamönnum dónaskap.

Þegar hann hafi síðar rætt við öryggisverðina og gert athugasemdir við framferði þeirra, hótaði einn öryggisvarðanna honum því að hann fengi ekki að fara í sitt flug. Eftir þetta hafi hann sent Isavia kvörtun enn ekki fengið svar.

Viðeigandi aðilar rannsaka málið

Í skriflegu svari frá Isavia kemur fram að kvartanir sem enda á borði Keflavíkurflugvallar séu sendar á viðeigandi aðila sem rannsakar síðan hvað olli kvörtuninni.

Í kjölfarið setjum við okkur í samband við þann sem kvartaði og verkferlar uppfærðir ef þörf þykir á.“

Þar segir einnig að ef það berst ábending þess efnis að starfsmaður hafi gerst sekur um dónaskap, þá sé það til dæmis skoðað í myndavélakerfi flugvallarins. Viðtöl eru síðar tekin við aðila sem koma að málinu og brugðist við á viðeigandi máta.

Hjólapumpa gerð upptæk

Gagnrýni Árna lauk þó ekki þar, heldur gagnrýnir hann einnig að neyðarpumpa fyrir reiðhjól í hans fórum hafi verið gerð upptæk við öryggisleit á Keflavíkurflugvelli.

Pumpan hafi áður komist í gegnum öryggisleit í Danmörku. Eftir að hann sendi Isavia fyrirspurn um það hvort hann gæti nálgast pumpuna aftur fékk hann þau svör að henni hafi verið fargað.

Ekki hægt að nálgast hlutinn aftur

Í svari Isavia við fyrirspurn mbl.is segir að þegar hlutur er gerður upptækur er honum komið fyrir á viðeigandi stað og síðar fargað. Sé hluturinn talinn hættulegur er lögregla kölluð til. Þegar hlutur hefur verið gerður upptækur er ekki hægt að nálgast hann aftur.

„Farþegum er hins vegar velkomið að snúa til baka og koma hlutnum í öruggar hendur og hefja svo innritunarferlið aftur. Þegar að farþegi skráir sig í flug staðfestir hann við innritun að varningur sem brýtur í bága við lög sé ekki í farangrinum,” segir í svari Isavia.


mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka