Stúlka sem sakaði samnemanda sinn í Framhaldsskólanum á Laugum um nauðgun og kærði málið til lögreglu, er mjög ósátt við viðbrögð skólastjórnenda í málinu og foreldrar hennar einnig. Þau geta ekki séð að neinu sérstöku verklagi hafi verið fylgt eftir að skólastjórnendum var greint frá því sem gerst hafði.
Bæði þolandi og meintur gerandi áttu að mæta áfram í skólann á meðan málið var rannsóknar hjá lögreglu og stúlkan fékk lítinn sem engan stuðning frá skólanum, þrátt fyrir að dvelja þar á heimvist fjarri fjölskyldu sinni. Hún hraktist að lokum úr skólanum vegna mikillar vanlíðunar.
Atvikið átti sér stað í október fyrir tveimur árum þegar stúlkan var tæplega 16 ára, en hún sagði ekki frá fyrr en hún kom heim í jólafrí, eða um tveimur mánuðum síðar.
Þá greindi hún foreldrum sínum frá því að skólabróðir hennar, sem hún taldi til vina sinna, hefði brotið gegn henni kynferðislega. Hann hefði haldið fyrir munn hennar, tekið hana hálstaki og komið fram vilja sínum gegn henni.
Skólameistari Framhaldsskólans á Laugum segir í samtali við mbl.is alltaf reynt eftir fremsta megni að fylgja verklagsreglum þegar upp koma kynferðisofbeldismál innan skólans. Nú stendur hins vegar yfir endurskoðun á verklagi, en skólinn taldi ekki hægt að bíða lengur eftir miðlægu verklagi frá menntamálaráðuneytinu.
Foreldrar stúlkunnar, kennarar og vinir höfðu tekið eftir því að hún hafði verið ólík sjálfri sér vikum saman og töldu að eitthvað hefði gerst. Einkunnir hennar höfðu lækkað, hún dró sig í hlé og vildi helst bara sofa. Var í raun orðin skugginn af sjálfri sér. Þrátt fyrir að henni liði illa vildi hún fara aftur í skólann eftir áramót. Hún vildi ekki láta meintan brotamann eyðileggja fyrir sér skólagönguna, þannig foreldrarnir gáfu grænt ljós á að hún færi aftur á Laugar.
Stúlkan tók jafnframt ákvörðun um að leggja fram kæru á hendur skólabróðurnum en í kjölfarið varð hún fyrir aðkasti frá vinahópi hans. Stúlkan fékk stöðu vitnis í málinu og faðir hennar segir ekkert hafa verið rætt við þá sem önnuðust hana og gátu gefið upplýsingar um þær breytingar sem höfðu orðið á henni. Gerandi hafi fengið mikið sterkari stöðu við rannsókn og vitnaleiðslur í málinu. Þá segir hann að aðalvitni í málinu hafi verið vinur meints geranda sem hafi logið fyrir hann. Málið hafi mögulega fallið með því, en það varð lokum fellt niður hjá lögreglunni.
„Við vildum fá hana heim en hún vildi ekki láta þetta eyðileggja fyrir sér skólann þannig hún fór aftur í eftir áramót,“ segir faðir stúlkunnar en hann og móðir hennar höfðu þá samband við skólastjórann og greindu frá því sem hafði gerst.
Þau segjast orðlaus yfir viðbrögðunum sem þau fengu. Faðir stúlkunnar segir að skólastjórinn hafi sagt að það „kæmi bara oft fyrir að strákar fengju meira en þeir ættu að fá“. Þannig hafi átt að afgreiða málið sem léttvægt. Þau hafi ekki fundið fyrir neinum vilja af hálfu skólastjórnenda að taka á málinu eða koma því í ásættanlegan farveg. Þau upplifðu það þannig að ekkert verklag væri til staðar til að grípa til í málum sem þessum.
„Eini starfsmaður skólans sem sinnti henni gerði það í sínum frítíma án aðkomu skólans og efast um að skólastjórnendur hafi vitað af því. Þau tóku að minnsta kosti ekki mark á því sem hann sagði foreldrum frá í samtali,“ segir faðirinn.
„Það var enginn áhugi á að gera neitt. Við töluðum við skólanefndina og fengum bara fokkjú frá þeim líka. Þau sögðu okkur að ræða við skólastjórann en við sögðum að það væri ekki hægt að ræða þetta við hann. Þá var málinu bara lokið. Skólinn gerði nákvæmlega ekki neitt. Hann og hún áttu bara að vera þarna eins og ekkert hefði ískorist,“ segir hann jafnframt.
„Skólinn gerði ekki neitt í að aðstoða hana við að komast í skýrslutökur eða annað hjá lögreglu, en þær fóru fram á Akureyri. Við foreldrar flugum til Akureyrar til að vera henni til aðstoðar við skýrslutökur og þurftum að byrja á að taka bílaleigubíl til að fara á Lauga og sækja hana.“
Þegar líða fór á vorönnina var orðið ljóst að stúlkunni leið mjög illa og segir faðirinn hana í raun hafa verið í hálfgerðu stofufangelsi. Einn daginn hringdi hún grátandi af vanlíðan í móður sína sem hafði í kjölfarið samband við þann sem var á vakt á heimavistinni og bað um að litið yrði til stúlkunnar þar sem henni liði mjög illa.
Faðirinn segir viðkomandi hins vegar hafa verið mjög hranalega við stúlkuna, sagt henni að „hætta bara þessu væli og herða sig“.
Eftir það sendi móðirin mjög harðorðan póst á skólastjórann og kvartaði yfir skorti á viðbrögðum og ömurlegri framkomu gagnvart stúlkunni. Varð það til þess að haldinn var fundur með barnverndarnefnd í bæjarfélagi stúlkunnar, skólastjórnendum, foreldrum og stúlkunni sjálfri.
Faðirinn segir að henni hafa verið stillt upp fyrir framan skólastjórnendur líkt og hún væri sökudólgur í málinu. Hún hafi hálfpartinn verið skömmuð og foreldrarnir málaðir upp sem dónar.
„Fundurinn varð eftir það mikill skrípaleikur þar sem áherslan og samtalið var flutt á umferðaróhapp sem samnemendur hennar höfðu lent í og öll umræða um málið og meðhöndlun þess markvisst drepin niður,“ segir faðirinn.
Í samtali við mbl.is segist stúlkan hafa farið sjálf til skólameistara eftir að hún lagði fram kæru, og spurt hvort það væri möguleiki á því að meintur gerandi færi í fjarnám svo hún þyrfti ekki að mæta honum í skólanum. Hún hafi hins vegar fengið þau svör að það væri ekki hægt.
Faðir hennar skýtur því inn í að rökstuðningur skólameistara í samtali við hann hafi verið sá að ári áður hefði önnur stúlka kært nauðgun en í ljós hefði komið að þær ásakanir hefðu verið uppspuni.
Stúlkan vill ekki koma fram undir nafni en finnst mikilvægt að deila sinni reynslu í þeirri von um að læra megi af mistökunum sem voru gerð. Hún vonar að vilji sé til þess að reyna að gera betur. Sérstaklega í ljósi þeirrar háværu umræðu sem skapast hefur meðal framhaldsskólanema og í samfélaginu öllu eftir mál sem komu upp bæði í Fjölbrautaskólanum á Suðurlandi og í Menntaskólanum við Hamrahlíð núna í haust og fjölmenn mótmæli gegn aðgerðaleysi yfirvalda sem fóru fram við síðarnefnda skólann.
Framhaldsskólanemar lögðu meðal annars fram þær kröfur að þolendur væru ekki neyddir til að umgangast gerendur sína innan skólans og að þolendur fengju stuðning innan skólans, óháð kæru eða úrskurði. Þá var einnig gerð krafa um að ef nemandi kærir annan nemanda fyrir kynferðisofbeldi þá skuli vísa þeim síðarnefnda úr staðnámi í fjarnám á meðan málið er til skoðunar.
Samband Íslenskra framhaldsskólanema (SÍF) hefur stofnað aðgerðarhóp til að setja saman aðgerðaráætlun er varðar kynferðislegt ofbeldi og áreiti í framhaldsskólum sem innleiða á um miðjan næsta mánuð. Er það mat SÍF að menntamálaráðuneytið sé fallið á tíma með sína miðlægu verklagsáætlun.
Stúlkan segir að hún hefði haft skilning á því meintur gerandi fengi að vera í skólanum eftir að málið var fellt niður, en á meðan málið var til rannsóknar hjá lögreglu hefði verið eðlilegt, að hennar mati, að skólinn gerði eitthvað til að koma í veg fyrir að hún þyrfti að hitta hann.
Hún er ósátt við að hafa þurft að hitta hann göngum skólans, í matsalnum og jafnvel á heimavistinni. Henni finnst að með því hafi verið gefin þau skilaboð að það sé í lagi að beita ofbeldi.
Hún bendir á að fólk hafi verið rekið fyrir að vera með áfengi á vistinni, lélega mætingu og fleira í þeim dúr.
„Af hverju get ég ekki haldið áfram í skólanum sem mig langaði að vera í og við borguðum ótrúlega mikið fyrir?“ spyr hún.
„Ég upplifði það þannig að allir héldu að ég væri að ljúga.“
Að lokum fór það svo að stúlkan fékk sjálf að fara í fjarnám til að ljúka önninni vegna þess að henni leið orðið svo illa á Laugum. Í kjölfarið hrökklaðist hún úr skólanum fór ekki aftur þangað að sumarleyfi loknu.
Hún segir foreldra sína ekki hafa áttað sig á því strax hve mikil áhrif atvikið hafði haft á hana, en hún bókstaflega hrundi í gólfið eftir að hún greindi þeim frá því sem hafði gerst.
Stúlkan hefur nú hitt sálfræðing í tæp tvö ár til að reyna að vinna úr áfallinu og annarri erfiðri reynslu og er á þokkalega góðum stað í dag. Hún á þó enn erfitt með ýmis konar snertingu og og nálægð og jafnvel myndir og myndbönd af einhverju sem hún tengir við ofbeldið.
Hún stundar nú nám í framhaldsskóla á höfuðborgarsvæðinu og finnur aftur fyrir áhuga á náminu, þrátt fyrir að syrgja það að geta ekki haldið áfram í draumaskólanum sínum.
Sigurbjörn Árni Arngrímsson, skólameistari Framhaldsskólans á Laugum, segir alltaf reynt eftir fremsta megni að fara eftir öllum verklagsreglum þegar upp koma hverkyns ofbeldismál innan skólans, þar á meðal kynferðisofbeldismál. Hann segist hins vegar ekki geta rætt einstök mál og geti því ekki tjáð sig sérstaklega um mál stúlkunnar. Endurskoðun stendur nú yfir á verklagsreglum við skólann.
„Við reynum eftir fremsta megni að fara eftir öllum okkar verklagsreglum. Nota þau tæki og tól sem við höfum og gera eins vel og okkur er unnt í hverju máli. „Ég tek undir með þeirri gagnrýni og umræðu sem hefur komið fram í samfélaginu, að það er ljóst að samfélagið þarf að gera betur. Skólarnir þurfa betri stuðning og skýrari viðbragðsferla til að gert réttar í svona málum. Og betri tól og tæki,“ segir Sigurbjörn í samtali við mbl.is.
„Við tökum öll svona mál alvarlega og ekki af léttúð,“ bætir hann við. Þá segist hann hvetja alla sem verða fyrir ofbeldi að leita til lögreglu. Engin tvö mál séu eins og innan skólans snúist þetta að miklu leyti að halda utan um nemendur.
Spurður hvort það sé viðhöfð sú regla að vísa meintum geranda úr skóla ef upp kemur ásökun um nauðgun eða annars konar kynferðisofbeldi innan skólans, segir Sigurbjörn það ekki þannig í verkferlunum. Slíkt sé erfitt þar sem skólinn hafi fræðsluskyldu að gegna gagnvart nemendum undir 18 ára aldri. Taki skólinn ákvörðun um að vísa nemanda úr skóla sé hægt að kæra þá ákvörðun til æðra dómsvalds.
„Ef ákvörðunin er svo kærð til æðra dómsvalds sem kemst að þeirri niðurstöðu að skólinn eða skólastjóri hafi ekki gert rétt, þá þyrfti að taka við nemandanum aftur. Þá er hægt að túlka dóminn þannig að þú hafir ekki gert neitt rangt og að hegðunin hafi verið í lagi. Ég skil ósköp vel að við viljum ekki hafa ofbeldismenn í skólunum, en það þarf að koma einhver heildstæð lausn á þessu ferli öllu saman. Hvað er rétt að gera.“
Sigurbjörn segist ekki geta greint frá því hvort hann hafi einhvern tíma vísað nemanda úr skóla vegna meints kynferðisbrots, vegna smæðar skólans. Hann hafi vísað svo fáum úr skóla síðan hann tók við starfinu, en hann hefur vísað nemendum úr skóla vegna brota á skólareglum.
„Við reynum alltaf að greiða úr þessum málum eins vel og okkur er unnt en því miður eru tækin sem við höfum ekki alltaf góð.“
Verið er að endurskoða verklagsreglur við skólann núna. Sigurbjörn segir þau hafa ætlað að bíða eftir miðlægu verklagi frá menntamálaráðuneytinu en þar sem það verði ekki tilbúið strax hafi þau sjálf hafist handa við vinnuna.
„Við ákváðum eftir atvikið á Selfossi að reyna að sjá hvort við gætum ekki gert eitthvað betur hjá okkur og erum að vinna í því. Síðan þegar miðlæga verklagið kemur þá getum við væntanlega bætt um betur,“ segir Sigurbjörn og vísar þar til meints kynferðisbrotamáls kom upp í Fjölbrautarskóla Suðurlands í ágúst, og lögregla er með til rannsóknar. Skólastjóri fékk á sig mikla gagnrýni eftir að hafa sent út póst þar sem hún sagði geranda saklausan þar til sekt væri sönnuð. Hún bað nemendur jafnframt um að ræða málið ekki á samfélagsmiðlum vegna viðkvæmni þess.
Verklagi í tengslum við viðbrögð Framhaldsskólans á Laugum við kynferðisofbeldi var síðast breytt haustið 2020
Þá segir Sigurbjörn að síðustu tvö ár hafi fræðsla verið aukin til muna og boðið hafi verið upp á ýmsa fyrirlestra um samskipti kynjanna, sjálfstyrkingu, að setja mörk, eitraða karlmennsku og fleira í þeim dúr.
„Við tökum mikið af utanaðkomandi fræðslu inn í okkar skólastarf og það er námsráðgjafinn okkar sem stýrir því hvað fer inn hjá okkur. Það er búið að vera að markmið hjá okkur að auka þetta síðan í Covid. Að drekkja krökkunum í fræðslu.“