Jóhannes Rúnarsson, forstjóri Strætó, segir að málið frá því í gær þegar tveir farþegar veittust að strætisvagnabílstjóra í vagni síðdegis sé nú í rannsókn hjá lögreglu, en því sé hins vegar lokið innan fyrirtækisins.
„Þetta gerðist allt hratt. Ég veit að þessir tveir menn komu að vagnstjóranum og annar var með hníf í hendi, sem féll síðan í gólfið. Farþegar í vagninum komu strax vagnstjóra til aðstoðar og þá fóru mennirnir úr vagninum.“
Jóhannes segir að í tilfellum sem þessum sé vagnstjóra boðin áfallahjálp og að fara af vaktinni. Vagnstjórinn hafi hins vegar borið sig vel. „Hann þáði ekki áfallahjálpina og lauk við vaktina,“ segir Jóhannes.
Vagnstjórinn var að keyra leið þrjú þegar ráðist var að honum í gær. Þakka má snögg viðbrögð annarra farþega í vagninum að ekki fór verr.