Um 250 tóku þátt í flugslysaæfingu almannavarna og Isavia á Akureyrarflugvelli í gær, þar á meðal 50 sjálfboðaliðar sem tóku þátt sem leikarar og léku slasaða farþega og áhöfn á vettvangi.
Æfingin var sú fjórða sem haldin er á flugvöllum landsins í ár og byggði á flugslysaáætlun Akureyrarflugvallar. Þátttakendur í henni voru frá öllum viðbragðsaðilum á svæðinu í kring.
Starfsfólk Isavia Innanlandsflugvalla á Akureyrarflugvelli æfðu viðbúnað sinn sem og fulltrúar almannavarna, lögreglu, björgunarsveita, Rauða krossins; Landhelgisgæslunnar og Sjúkrahúsið á Akureyri ásamt Heilbrigðisstofnun Norðurlands.
Aðgerðastjórn á Akureyri var við stjórn aðgerðarinnar ásamt því að Samhæfingarstöðin í Skógarhlíð var að störfum en í stórum aðgerðum skiptir m.a. samhæfing í heilbrigðiskerfinu á landsvísu veigamiklu hlutverki.
Líkt var eftir að farþegaflugvél hefði bilað og rekist á aðra vél á brautinni við lendingu. Björgunar- og slökkviaðgerðir voru æfðar sem og flokkun og björgun slasaðra á vettvangi og á söfnunarsvæði slasaðra á flugvellinum. Áhersla var lögð á flutning slasaðra, boðunarkerfi, stjórnun á vettvangi, samhæfingu og fjarskipti svo eitthvað sé nefnt.
„Flugslysaæfingar eins og þessi sem haldin var í gær og þær sem við höfum haldið í Reykjavík og á Ísafirði fyrir nokkrum vikum skipta afskaplega miklu til að efla viðbúnað við flugslysum og hverjum öðrum alvarlegum slysum sem geta orðið í nærsamfélagi hvers flugvallar,“ segir Elva Tryggvadóttir, verkefnastjóri neyðarviðbúnaðar hjá Isavia og æfingastjóri.
„Við hjá Isavia og almannavörnum höfum lagt áherslu á að þessar æfingar líki sem best eftir þeim aðstæðum sem geta skapast þannig að viðbragðsaðilar fái að reyna sig í því sem mætti teljast nálægt þeim aðstæðum sem geta skapast þegar hættu ber að höndum. Þetta gagnast okkur, Almannavörnum og öllum þeim öflugu viðbragðsaðilum sem tóku þátt í æfingunni í dag.“