Ólíklegt að börn fremji ofbeldisbrot án forsögu

Helgi Gunnlaugsson, prófessor í afbrotafræði við Háskóla Íslands.
Helgi Gunnlaugsson, prófessor í afbrotafræði við Háskóla Íslands. mbl.is/Friðrik Tryggvason

„Þetta er vitaskuld barnaverndarmál. Svona ungir drengir eru ósakhæfir og ekki hægt að draga þá til refsiábyrgðar,“ segir Helgi Gunnlaugsson, prófessor í afbrotafræði við Háskóla Íslands.

Hann segir að iðulega þegar mál svona ungra brotamanna komi upp, ekki síst erlendis, fari af stað mikil umræða um hvað sé hægt að gera og hvernig sé hægt að láta unga sakborninga sæta ábyrgð. 

Ólíklegt sé hins vegar að ofbeldisbrot, eins og þrír 14 ára drengir frömdu í gærkvöldi, þar sem þeir réðust að tilefnislausu á fólk, vopnaðir eggvopnum, séu framin án forsögu.

„Þá heyrast þessar raddir sem kalla eftir þyngri refsingum og refsiábyrgð. En hér á Íslandi fara öll mál af þessu tagi til barnaverndaryfirvalda sem reyna að finna einhverja lausn á málinu,t.d. með vistunarúrræðum.“

Helgi bendir samt á að afar ólíklegt sé að svona ofbeldisbrot séu framin án nokkurrar forsögu og segir að oftast séu brot ungra barna afleiðing af einhverjum aðstæðum, og oft hafi jafnvel komið áður til kasta barnaverndar. Hann segist þó ekkert þekkja til þessa einstaka máls drengjanna þriggja sem réðust að fólki í gærkvöldi og vill því ekki tjá sig um það.

„Meginreglan er sú að það er reynt að forðast eftir fremsta megni að setja ungt fólk í fangelsi og alls ekki einstaklinga undir 18 ára aldri, enda aðeins örfá dæmi um slíkt hérlendis,“ segir hann. Í rauninni sé reynt að finna aðrar lausnir fyrir alla sem eru undir tvítugu.

Líneik Anna Sævarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins og formaður Velferðarsviðs.
Líneik Anna Sævarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins og formaður Velferðarsviðs. mbl.is/Kristinn Magnússon

Kalla eftir upplýsingum um verkferla

Líneik Anna Sævarsdóttir, formaður velferðarnefndar og þingmaður Framsóknarflokksins, segir í samtali við mbl.is að hún muni kalla eftir upplýsingum frá barnaverndarnefnd um hvaða verkferlar fari í gang í þessu máli og sambærilegum málum. 

„Ég vil vita það sem alþingismaður hvað gerist nú og hvaða úrræði eru í boði, bæði fyrir drengina og fjölskyldur þeirra.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka