„Óvönduð vinnubrögð sem birtast þarna“

Sigríður J. Friðjónsdóttir er ríkissaksóknari. Embættið sinnir samræmingar- og eftirlitshlutverki …
Sigríður J. Friðjónsdóttir er ríkissaksóknari. Embættið sinnir samræmingar- og eftirlitshlutverki um framkvæmd ákæruvalds hjá lögreglustjórum, sem og að samræma verklag varðandi rannsóknir sakamála.

Í þessari viku voru tveir dómar héraðsdóms birtir þar sem dómarar gagnrýna nokkuð harðlega rannsókn lögreglu. Í öðru tilfellinu er beinum orðum sagt að vinnubrögð lögreglu hafi verið í andstöðu við lög um meðferð sakamála þar sem ranglega var haft eftir brotaþola í skýrslugerð um lýsingu sem var til grundvallar í málinu.

Sigríður J. Friðjónsdóttir ríkissaksóknari segir mál sem þessi sjaldan koma upp, en þó séu örfá dæmi árlega. Embættið fari yfir þau og ef tilefni sé til sé rætt við saksóknara og lögreglustjóra viðkomandi embættis.

Sérstakur kafli undir heitinu „aðfinnslur“

Í fyrri dóminum, sem reyndar féll um miðjan september en var fyrst birtur á vefsíðu Héraðsdóms Norðurlands eystra í vikunni, eru karl og kona sýknuðu af ákæru um ólögmæta nauðung og barnaverndarlagabrot. Hafði fólkið afskipti af dreng sem maðurinn taldi hafa áreitt son þeirra. Endaði það með því að drengurinn var keyrður til foreldra sinna þar sem ræða átti málið nánar. Snérist málið  um það hvort maðurinn hefði veist að drengnum og fólkið því næst farið með drenginn upp í bíl án þess að hann hefði samþykkt það.

Í dóminum er sérstakur kafli undir heitinu „aðfinnslur,“ en þar er meðal annars gerð athugasemd við að ósannað væri að maðurinn hefði veist að drengnum líkt og ákært var fyrir. Þannig hafi ekki verið tekin skýrsla af vitnum sem drengurinn hafði tilgreint að hefðu verið á staðnum, né frænku hans sem hefði nefnt að hún hefði séð manninn færa drenginn upp í bílinn. „ Lét lög­regla þannig und­ir höfuð leggj­ast að taka skýrsl­ur af vitn­um sem hefðu getað haft veru­lega þýðingu við að upp­lýsa málið og leiða hið sanna og rétta í ljós,“ segir í dóminum.

Í dómi Héraðsdóms Norðurlands eystra er hörðum orðum farið um …
Í dómi Héraðsdóms Norðurlands eystra er hörðum orðum farið um vinnubrögð lögreglu og sagt að þau hafi verið í andstöðu við lög um meðferð sakamála. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Ranglega haft eftir drengnum

Jafnframt er gerð athugasemd við að í lögregluskýrslu um skýrslugjöf drengsins sé ranglega haft eftir honum að maður­inn hefði „strax byrjað að öskra og skamm­ast í hon­um.“ Segir í dóminum að þessi lýsing drengsins sé ekki hluti af upptöku skýrslutökunnar. Jafnframt er ekki greint frá því í skýrslunni að drengurinn hafi svarað því játandi þegar hann var spurður hvort það hafi verið val fyrir sig að fara upp í bíl parsins. Að lokum hafi leiðrétting konunnar varðandi verknaðarlýsingu í málinu ekki verið sett í skýrsluna. „Er þessi óná­kvæmni í skýrslu­gerð lög­reglu um mik­il­væg atriði aðfinnslu­verð,“ segir í dóminum.

Vildu ekki skoða og sannreyna hvort síminn hefði verið notaður

Í síðari dóminum, sem kveðinn var upp í Héraðsdómi Reykjaness í síðustu viku, var maður sýknaður af ákæru um að hafa notað síma við aksturs án handfrjáls búnaðar. Höfðu lögreglumenn í eftirlitsferð mætt manninum í Hraunahverfinu í Hafnarfirði og talið hann tala í síma undir stýri. Stöðvaði lögreglan manninn sem neitaði staðfastlega að hafa talað í síma undir stýri, en undirritaði þó skýrslu á vettvangi.

Eftir að honum voru send sektarboð ítrekaði maðurinn mótmæli sín og sagðist hafa boðið lögreglumönnunum að skoða síma sinn á staðnum og símtalaskrá, en því verið hafnað. Þá hafi maðurinn einnig reynt nokkru síðar að nálagast gögn um símanotkun sína hjá símafyrirtæki, en það hafi þó verið of seint og fyrirtækið búið að eyða gögnunum.

Við meðferð málsins fyrir dómi benti maðurinn á að lögreglan hefði ekki lagt nein gögn fyrir sem færðu sönnur á sekt hans, aðeins væri byggt á því að lögreglumaður hefði talið sig sjá, í gegnum bílrúðu, að hann hefði notað farsímann. Þá hafi hann ekki fengið að sjá upptöku lögreglu af brotinu.

Seinna málið var rekið fyrir Héraðsdómi Reykjaness. Dómari sagði að …
Seinna málið var rekið fyrir Héraðsdómi Reykjaness. Dómari sagði að lögregla hefði getað beitt ein­föld­um rann­sókn­araðgerðum til að skera úr um sekt eða sakleysi. mbl.is/Ófeigur

Einfaldar rannsóknaraðgerðir sem ekki var farið í

Í dóminum segir að sönnunarbyrði um sekt hvíli á ákæruvaldinu og að þrátt fyrir mótmæli ökumannsins hafi lögreglan ekki aðhafst neitt til að safna mögulegum gögnum um sekt hans. Jafnvel þegar ökumaðurinn hafi haldið mótmælum sínum áfram hefði lögreglan getað óskað eftir upplýsingum um símanotkun hans frá fjarskiptafyrirtæki, með heimild mannsins eða dómsins, en ekki hafi verið farin sú leið.

„Auðvelt hafi verið fyr­ir lög­reglu að skera úr um sekt eða sak­leysi ákærða með ein­föld­um rann­sókn­araðgerðum. Eng­in eig­in­leg rann­sókn á mál­inu hafi farið fram hjá lög­reglu þrátt fyr­ir neit­un ákærða á sak­argift­um allt frá því hann var stöðvaður,“ segir í dóminum sem sýknar manninn og fellir málskostnað á ríkissjóð.

Fara yfir 1.500 dóma og 260 kærur árlega

Ríkissaksóknari sinnir samræmingar- og eftirlitshlutverki um framkvæmd ákæruvalds hjá lögreglustjórum, sem og að samræma verklag varðandi rannsóknir sakamála. Í samtali við mbl.is segir Sigríður að embættið fari yfir alla þá dóma sem falli, sektargerðir sem og niðurfellingar hjá lögreglu og héraðssaksóknara. Samtals falli um 1.500 dómar árlega og 260 kærur berist embættinu. „Ef við rekum augun í að eitthvað hafi farið úrskeiðis þá er haft samband við viðkomandi ákæranda og lögreglustjóra að rétta kúrsinn,“ segir hún.

Varðandi þessi tvö mál hafði embættið þegar farið yfir fyrra málið sem er frá Norðurlandi eystra. Niðurstaðan þar var að ekki væri efni til að áfrýja málinu af hálfu embættisins. Í hinu málinu sé embættið ekki búið að yfirfara niðurstöðuna og sagði Sigríður að hún gæti því takmarkað tjáð sig um það mál enn sem komið er.

„Stundum verður ákæruvaldið að sitja uppi með mistökin“

Þegar eitthvað hefur farið úrskeiðis sem bent er á í dómum segir Sigríður að almennt sé hægt að fara nokkrar leiðir. Þannig sé mögulega hægt að leiða fyrir ný vitni fyrir Landsrétt, eða leggja fram ný gögn sem gætu hafa komið fram síðar. Þá geti líka verið að í sumum tilfellum telji embættið að einhvers misskilnings gæti hjá dómara sem rétt væri að reyna að leiðrétta fyrir efra dómsstigi. „Ef gerðar eru athugasemdir við rannsóknina eða eitthvað vantar upp á þá náttúrulega viljum við að menn gæti að sér og bæti úr því,“ segir Sigríður og bætir við að „ef eitthvað hefur farið þannig úrskeiðis að erfitt er að bæta úr fyrir Landsrétti þá stundum verður ákæruvaldið að sitja uppi með mistökin.“

Hún segir að með málið fyrir norðan þá sé ljóst að samantekirnar af skýrslutökunum hafi ekki verið nógu nákvæmar. Hún bendir hins vegar á að upptökur úr skýrslutökunum hafi legið fyrir sem gögn í málinu og að dómarinn hafi haft aðgang að þeim. Segir Sigríður að hún telji ekki viljaverk að ræða hjá lögreglu eða ákæruvaldinu hvernig þarna hafi farið. „Ég held að það hafi ekki verið reynt vísvitandi að falsa hlutina, heldur meira svona óvönduð vinnubrögð sem birtast þarna.“

„Þarna ekki alveg rétt með farið“

Spurð nánar út í áhrif þess að rangar samantektir upp úr skýrslutökum liggi fyrir í sakamálum segir Sigríður að það geti til dæmis verið mjög óheppilegt þegar verið er að bera skýrslurnar eða samantektirnar undir sakborninga eða vitni, hvort sem það er við rannsókn lögreglu eða fyrir dómi. „Þarna ekki alveg rétt með farið og það er alltaf bagalegt.“

Þó að ákvörðun um að áfrýja ekki þessu máli liggi fyrir hjá embættinu segir Sigríður að ekki sé búið að rýna það að fullu. Verði það skoðað í samvinnu við lögreglustjóraembættið, eins og í öðrum málum þegar svona komi upp. Í þessu tilfelli var saksóknarinn frá héraðssaksóknara og verður málið því líklega tekið upp við það embætti líka.

Þessi mál í „yfirgnæfandi minnihluta“

Spurð um fjölda mála sem komi upp þar sem um sé að ræða mögulega vanrækslu við rannsókn eða saksókn mála Sigríður þau ekki mörg. Vísar hún á ný til fjölda dóma sem falli á hverju ári og kæra sem berist embættinu. Segir hún að líklega séu málin fleiri en eitt eða tvö árlega, en þó örfá, og „í yfirgnæfandi minnihluta.“ Bætir hún við: „Þetta á ekki að gerast, en gerist samt í einstaka tilfellum.“

Til viðbótar við að gera skriflegar eða munnlegar athugasemdir við lögreglustjóra og ákærendur í  einstökum málum segir Sigríður að ríkissaksóknari fundi einnig árlega með hverju og einu embætti lögreglustjóra landsins og héraðssaksóknara. Þar sé vettvangur til að bera upp mál ef embættið sjái einhverja þróun mála innan ákveðinna embætta sem rétt er að gera sérstakar athugasemdir við. Slíkir fundir fari einmitt fram í október og nóvember á þessu ári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka