Það andaði köldu milli Kína og fulltrúa Atlantshafsbandalagsins á nýafstöðnu árlegu þingi Hringsborðs norðurslóða í Hörpu. Fréttaveitan Bloomberg skýrði frá.
Aðmírállinn Rob Bauer, formaður hermálanefndar Atlantshafsbandalagsins skaut hörðum skotum á sendiherra Kína á Íslandi, He Rulong, vegna tregðu Kínverja til þess að fordæma innrás Rússa í Úkraínu á þinginu sem lýkur í dag.
Bauer var ekkert að tala undir rós og sagði Kínverja „ekki deila gildum okkar og að þeir grafi undan reglum í alþjóðasamstarfinu.“ He Rulong reis upp úr sæti sínu í áhorfendahópnum og svaraði Bauer: „Aðmíráll, með fullri virðingu, þá er ræða þín og ummæli hér full af hroka.“
Þetta svar dró ekki úr beinskeytni Bauer.
„Ég er með spurningu til þín vegna þess að þú undirstrikar meginregluna um fullveldi og mikilvægi alþjóðlega viðurkenndra landamæra í heiminum,“ og salurinn klappaði. „Svo hvernig stendur á því að Kína hefur ekki enn fordæmt innrás Rússa í Úkraínu?“
Kínverski sendiherrann sagði að Kínverjar vilji skoða innrás Rússa í Úkraínu í sögulegu samhengi og að heimurinn þurfi að skilja grundvallarorsökina fyrir ástandinu. Þegar hann gekk svo langt að kalla Kína „friðarsinna heimsins,“ brást salurinn við með hlátri.
Kínverjar hafa verið tregir til að fordæma forseta Rússlands Vladimír Pútín og stríðið í Úkraínu, þrátt fyrir að í síðustu viku hafi borist fregnir þessefnis að kínversk yfirvöld væru áhyggjufull yfir nýlegum árásum á almenna borgara í Úkraínu.
Á Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna nýverið í New York var innlimun leppstjórnarhéraða Rússa í Úkraínu fordæmd, og féllu atkvæði 143-5 og 35 þjóðir sátu hjá, þar á meðal bæði Indland og Kína.
Gao Feng, sérstakur fulltrúi Kína í málefnum norðurslóða sagði á þinginu Kína myndi ekki styðja að útiloka Rússland frá Norðurskautsráðinu, en þeir hafa formennsku í ráðinu núna. Talað hafði verið að taka ætti formennskuna af Rússum sem refsingu fyrir stríðið í Úkraínu og færa það til Norðmanna. Feng sagði engin fordæmi fyrir þannig sætaskiptum og að Kína myndi ekki styðja neitt í þá veru.