Þyrla Landhelgisgæslunnar var kölluð út í Grímsey í gærkvöldi til að sækja mann sem hafði ekið fram af bryggju og endað í grýttri fjöru. Slysið varð rétt fyrir klukkan tíu í gærkvöldi og var maðurinn einn í bílnum.
Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Norðurlandi eystra voru erfiðar aðstæður á svæðinu; vonskuveður, mikill vindur og úrkoma. Lögregla hefur þó ekki farið út Grímsey svo ekki liggja fyrir nákvæmar upplýsingar um aðstæður á slysstað.
Þyrlan var kölluð út og fór hún með sjúkralið að sækja hinn slasaða og flytja á sjúkrahús. Vegna veðurs komst hún hins vegar ekki til Grímseyjar fyrr en um klukkan hálf tvö í nótt og lenti á Akureyri á þriðja tímanum.
Ekki liggja fyrir upplýsingar um líðan mannsins en hann var fluttur á Sjúkrahúsið á Akureyri.