Vopnaðir 14 ára drengir réðust á fólk af handahófi

Lögregla handsamaði drengina og málið var afgreitt með aðkomu barnaverndaryfirvalda.
Lögregla handsamaði drengina og málið var afgreitt með aðkomu barnaverndaryfirvalda. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þrír fjórtán ára drengir voru handsamaðir í miðbæ Reykjavíkur í gærkvöldi eftir að hafa ráðist á fólk af handahófi á að minnsta kosti þremur stöðum. Drengirnir spörkuðu meðal annars í höfuð fórnarlamba eftir að hafa slegið þau í jörðina. Þeir voru jafnframt vopnaðir eggvopnum sem þeir ógnuðu fólki með.

Málið var afgreitt með aðkomu barnaverndar og voru drengirnir vistaðir á viðeigandi stofnun, samkvæmt tilkynningu frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.

Tvö vopnalagabrot

Þá var ölvaður ökumaður stöðvaður í miðbænum í gærkvöldi, en þegar afskipti voru höfð af honum kom í ljós að hann var vopnaður eggvopnum sem lagt var hald á. Maðurinn á yfir höfði sér kæru fyrir vopnalagabrot.

Lögreglan handtók einnig konu í Árbænum fyrir vopnalagabrot og að fara ekki eftir fyrirmælum lögreglu. Réðst hún á lögreglumenn þegar höfð voru afskipti af henni.

Innbrot í nokkur fyrirtæki

Í Árbænum voru einnig framin innbrot í tvö fyrirtæki en ekki er vitað á þessari stundu hverju var stolið.

Einnig var framið innbrot í fyrirtæki í Breiðholti, en það liggur heldur ekki fyrir hverju var stolið þar.

Þá var brotist inn í verslun í Kópavogi þar sem sjóðsvélum með skiptimynt var stolið.

Öll málin eru í rannsókn.

Einnig var talsvert um útköll víðsvegar um höfuðborgarsvæðið þar sem þakplötur, hlutir frá byggingarsvæðum, ásamt trampólínum, voru að fjúka. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert