Að fara rétt með án þess að vera klúr

Spurður út í hvaða áskoranir felist sérstaklega í að þýða verk Milans Kundera nefnir þýðandinn Friðrik Rafnsson að það skipti miklu máli að ná réttum tón í verkinu þegar Kundera tengir saman mjög einkalegar aðstæður og færir þær skyndilega upp á svið sögunnar.

„Þetta gerir hann oft meistaralega.“

Kundera skrifar til dæmis um ástir og kynlíf og segir þýðandinn vandasamt að halda réttum tóni, þannig að sagt sé rétt frá án þess að skrifin verði klúr. 

Eins og hljómsveitarstjóri

Þá nefnir hann einnig að Kundera byggi bækurnar sínar að miklu leyti upp eins og tónverk. Hann noti til dæmis eitthvert orðalag snemma í verkinu og kemur síðan fyrir tilbrigði við þetta orðalag löngu síðar.

„Eins og með allar bækur sem maður þýðir þarf maður að þekkja þær mjög vel en maður verður líka að gera sér grein fyrir þessum tengingum innan verksins alveg eins og tónlistarmaður eða hljómsveitarstjóri sem þarf að vita nákvæmlega hvar eitt stef kallast á við annað stef annars staðar,“ segir hann.

„Þetta á að renna eins og tær lækur þótt undir niðri sé kannski ýmislegt í gangi. Það er það sem er mjög gaman og það sem er ögrandi og gríðarlega gefandi að fást við.“

Svikin við erfðaskrárnar

Friðrik hefur nýlokið við að þýða allt höfundarverk Kundera. Síðasta verk Kundera sem komið er út á íslensku nefnist Svikin við erfðaskrárnar og kom upphaflega úr í Frakklandi árið 1993. Verkið kallar Kundera „ritgerð í níu hlutum“.

„Það segir sína sögu. Þetta er ekki ritgerðasafn eins og við þekkjum heldur er þetta byggt upp eiginlega eins og skáldsaga,“ skýrir Friðrik. Sama viðfangsefnið komi fyrir á ólíkum stöðum í verkinu og þannig verði hlutarnir níu mjög samtvinnaðir. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert