Ákall vegna neyðarástands í heilbrigðiskerfinu

„Aðgerðarleysi stjórnvalda, þrátt fyrir ítrekaðar aðvaranir, stefnir heilsu þjóðarinnar í …
„Aðgerðarleysi stjórnvalda, þrátt fyrir ítrekaðar aðvaranir, stefnir heilsu þjóðarinnar í hættu,“ segir í ákallinu. Ljósmynd/Landspítali/Þorkell

Læknafélag Íslands sendir ákall á ríkisstjórnina vegna ríkjandi neyðarástands í heilbrigðiskerfi landsins. Félagið krefst þess að ráðist verði í aðgerðir á margumræddum vanda tafarlaust enda sé núverandi ástand bæði óboðlegt og hættulegt. Þá lýsir LÍ sig reiðubúið til samstarfs við stjórnvöld um aðgerðir til lausnar á vandanum.

„Aðgerðarleysi stjórnvalda, þrátt fyrir ítrekaðar aðvaranir, stefnir heilsu þjóðarinnar í hættu,“ segir í ákalli LÍ sem var samþykkt á aðalfundi félagsins á föstudaginn.

Auka framlög

Í ályktun sem var samþykkt á fundinum segir jafnframt að félagið skori á stjórnvöld að hlíta þjóðarvilja og auka framlög til heilbrigðismála sem hlutfall af vergri landsframleiðslu til jafn við það sem þekkist annars staðar á Norðurlöndunum. 

Einnig skorar félagið á stjórnvöld að fara að lögum um heilbrigðisþjónustu og tryggja öllum landsmönnum aðgang að fullkomnustu heilbrigðisþjónustu sem tök eru á að veita, óháð efnahag og án óeðlilegrar tafar. 

Vaxandi brotthvarf

Í annarri ályktun sem samþykkt er fjallað um aðgerðir til að draga úr veikindafjarvistum lækna. Skorar LÍ á stjórnvöld að ráðast í markvissar aðgerðir vegna vísbendinga um aukinn heilsubrest lækna og vaxandi brotthvarf þeirra af vinnumarkaði.

„Niðurstöður heilsufarskannana heilbrigðisstétta hafa gefið vísbendingar um versnandi líðan, samhliða aukinni streitu og einkennum kulnunar. Opinberar tölur seinustu ára sýna auknar veikindafjarvistir lækna ásamt umtalsverðri fjölgun umsókna í starfsendurhæfingar- og veikindasjóð.  Mikilvægt er að sporna við þessari óheillaþróun til að draga úr álagi svo sem með auknum stuðningsúrræðum, úrbótum á starfsumhverfi, fjölgun stöðugilda og styttingu vinnuvikunnar,“ segir í ályktuninni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert