Alexandra sækist eftir endurkjöri

Alexandra Ýr van Erven.
Alexandra Ýr van Erven. Ljósmynd/Aðsend

Alexandra Ýr van Erven, ritari Samfylkingarinnar, sækist eftir endurkjöri á næsta Landsfundi. Þetta staðfestir hún í samtali við mbl.is. 

„Ef ég verð kjörin þá sé ég fyrir mér að vera rödd mjúku málanna,“ segir Alexandra, og vísar þá einkum til jafnréttismála. 

„Ég finn að ég á enn erindi í forystu flokksins. Þessi síðustu tvö ár hafa verið krefjandi og litast af kosningabaráttunum. Ég hlakka til að starfa með flokksfélögum mínum í öðruvísi árferði og einbeita mér að almennri stjórnmálavinnu.“

Breytingar á forystunni

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, hefur ákveðið að gefa ekki kost á sér til formennsku að nýju. Kristrún Frostadóttir er því ein í framboði til formanns eins og er.

Alexandra segist munu sakna Loga úr forystunni, en kveðst full tilhlökkunar að fylgjast með Kristrúnu í hlutverki formanns.

Þá eru einnig fyrirséðar breytingar á varaformennsku innan flokksins, þar sem Heiða Björg Hilmisdóttir sækist ekki eftir endurkjöri. Guðmund­ur Árni Stef­áns­son, odd­viti Sam­fylk­ing­ar­inn­ar í Hafn­ar­f­irði, hefur aftur á móti gefið út að hann bjóði sig fram til varaformanns. 

Alexandra var 26 ára gömul þegar hún var kjörin sem ritari flokksins á síðasta Landsfundi, árið 2020. Kom hún þá ný inn í forystuna en hefur nú öðlast meiri reynslu í hlutverkinu.

Spurð hvort þessar breytingar á forystunni hafi haft áhrif á ákvörðun hennar segir hún: „Nú þegar við erum að skipta um formann og varaformann, finnst mér mikill kostur að í embætti ritara sé einstaklingur með reynslu af því að sitja í forystu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert