Bandalag íslenskra leigubílstjóra og Bifreiðastjórafélagið Frami segja í umsögn um stjórnarfrumvarp um leigubifreiðaakstur, sem Alþingi hefur nú til meðferðar, að samþykkt frumvarpsins yrði feigðarflan fyrir leigubifreiðaakstur hér á landi.
Leggjast félögin alfarið gegn frumvarpinu, þess í stað verði leitað leiða til að taka á ólöglegri starfsemi í atvinnugreininni og hún upprætt.
Segja félögin að það bjóði án nokkurs efa upp á mismunun og undirboð í greininni ef lögaðila yrði hleypt inn á markaðinn til þess að reka leigubifreiðar að ótakmörkuðum fjölda í samkeppni við einyrkja.
„Leigubifreiðastjórar benda á að óvíða í atvinnulífinu er eins brýnt að viðhalda lögverndun. Ekki einungis til að tryggja öryggi neytenda heldur til að sporna við alþjóðlegri glæpastarfsemi sem víða erlendis hefur seilst inn í atvinnugreinina og notar bifreiðararnar til dreifingar á ólöglegum fíkniefnum svo dæmi sé tekið. Hér er ekki um að ræða neinn hræðsluáróður heldur beinharðar staðreyndir,“ segir í umsögninni.
Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, lagði frumvarpið fram og kemur fram í athugasemdum með því, að markmiðið sé einkum að tryggja gott aðgengi að hagkvæmri, skilvirkri og öruggri leigubifreiðaþjónustu, neytendum og þjónustuveitendum til hagsbóta.
Þá sé frumvarpinu ætlað að tryggja að íslenska ríkið uppfylli þær þjóðréttarlegu skuldbindingar sem það hefur undirgengist, auk þess að færa lög og reglur um leigubifreiðar til nútímalegra horfs með öruggar og tryggar samgöngur að leiðarljósi.
Í umsögn frá leigubílastöðinni Hreyfli um frumvarpið segir, að hvergi sé komið inná það í frumvarpinu hvernig neytendum skuli tryggt gott aðgengi að leigubifreiðaþjónustu á Íslandi og ekki heldur hvernig tryggja eigi faglega, örugga og skilvirka leigubifreiðaþjónustu. Þvert á móti sé með frumvarpinu allt gert til að rífa niður núverandi kerfi sem hafi einmitt uppfyllt öll þessi skilyrði sem talin séu upp í fyrstu grein.
„Í núverandi kerfi hefur starfsemi Hreyfils ávallt miðast við að tryggja þau skilyrði sem talin eru upp í fyrstu grein, þ.e. að tryggja faglega, örugga og skilvirka leigubifreiðaþjónustu fyrir neytendur á Íslandi,“ segir í umsögninni.