Tékkneski rithöfundurinn Milan Kundera hefur, að sögn þýðandans Friðriks Rafnssonar, greitt götur ýmissa íslenskra listamanna erlendis. Segir hann þetta merki um það örlæti sem skíni af annars hlédrægum manni.
Friðrik, sem var gestur Ragnheiðar Birgisdóttur í Dagmálum, hefur nýlokið við að þýða höfundarverk Kundera í heild sinni yfir á íslensku.
„Þau hafa komið, hann og Vera konan hans, nokkrum sinnum til Íslands og heilluðust mjög af landi og þjóð. Hann er þar af leiðandi einn af þessum miklu Íslandsvinum sem okkur þykir svo vænt um.“
Kundera hafi sýnt Íslendingum vináttu með ýmsum hætti. Sem dæmi nefnir Friðrik að höfundurinn hafi skrifað mjög lofsamlegan dóm um verk Guðbergs Bergssonar, Svaninn, í virtu tímariti í Frakklandi.
„Ef þekktur höfundur eins og hann mælir með einhverri bók þá hefur það auðvitað sín áhrif.“
Sjálfur hafi Kundera lítið tranað sér fram, ekki komið fram í viðtölum í áratugi og almennt engan áhuga haft á því að gerast „fjölmiðlatrúður“, eins og skáldið orðaði það sjálfur. Hann hafi frekar ákveðið að halda áfram að skapa og varið sinni orku í það síðan.