Ingólfur Kjartansson, sem héraðssaksóknari hefur ákært fyrir tilraun til manndráps og vopnalagabrot í tengslum við skotárás í bílastæðahúsi við Bergstaðastræti í febrúar, játaði sök við þingfestingu málsins í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun.
Arnþrúður Þórarinsdóttir, saksóknari hjá embætti héraðssaksóknara, fór fram á tíu ára dóm yfir honum en verjandi hans sagðist sætta sig við fimm ára dóm, en sex ár hið mesta.
Maðurinn sem var skotinn í árásinni og lifði hana af fer fram á skaða- og miskakröfur upp á 3,5 milljónir króna. Ákærði viðurkenndi bótakröfuna í héraðsdómi.
Fram kom í máli Arnþrúðar að Ingólfur, sem er um tvítugt, hafi mælt sér mót við manninn á vettvangi brotsins og sótt sér skotvopn áður en þangað var komið. Hann hafi gengið hreint til verks, skotið ítrekað að brotaþola á staðnum í tveggja til fjögurra metra fjarlægð og að ekkert annað hafi staðið til en að verða honum að bana.
Ákærði hafi verið skýr um að hafa ætlað að verða honum að bana. Það hafi komið fram í skýrslutöku eftir að hann var fluttur á lögreglustöð. Meðal annars hafi hann spurt hvort hann hafi náð að drepa brotaþolann og talað eftir á um að „sumum hundum þyrfti að lóga“. Beinn ásetningur hafi því verið fyrir hendi.
Eitt af skotunum fór beint í gegnum brjósthol mannsins, sem hlaut fyrir vikið lífshættulega áverka. Hending réð því að ekki fór verr, sagði Arnþrúður og bætti við að ákærði hafi framið árásina um tveimur vikum eftir að hann hlaut reynslulausn úr fangelsi. Var hann dæmdur í tveggja ára fangelsi í febrúar í fyrra fyrir ítrekuð vopnuð rán og líkamsárásir.
Hún nefndi einnig að taka beri til tekna við ákvörðun refsingar að ákærði hafi játað háttsemi sína til fulls en að önnur atriði komi til þyngingar, þar á meðal þessi beini ásetningur. Gögn málsins bendi jafnframt til þess að hann sé hættulegur. Vísaði hún í greinargerð áhættumats um að mikil eða mjög mikil áhætta væri af ofbeldishegðun hans.
Varðandi bótakröfur sagði réttargæslumaður að ákærði hafi vélað brotaþola til að hitta sig í þeirri trú að um vinafund væri ræða. Ákærði hafi í staðinn mætt með þrívíddarprentaða byssu með hljóðdeyfi á staðinn og skotið hann einu skoti sem orsakaði opið skotsár þrátt fyrir að brotaþoli hafi lyft upp höndunum sem merki um uppgjöf. Skotinu hafi verið hleypt af án þess að orð hafi verið mælt. Vopnið var með 9 mm hlaupvídd.
Ákærði hafi verið spenntur yfir því hvort hann hafi náð að drepa brotaþola. Vísaði hann í efni úr búkmyndavél lögreglu um að ætlunin hafi verið að drepa hann. Hann hafi jafnframt skotið að minnsta kosti þremur skotum í viðbót í kringum hann til þess að hræða hann.
Greinilega hafi aftaka átt að fara þarna fram. „Fyrirlitlegri og ógeðslegri verða árásirnar nú ekki,“ sagði hann og bætti við að brotaþoli hafi átt sér einskis ills von og ekki haft neinn möguleika á að verja sig. Atlagan hafi verið lífshættuleg og ófyrirleitin. Brotaþoli hafi verið narraður á staðinn og ákærði eigi sér í raun engar málsbætur.
Verjandi Ingólfs sagði hann skýlaust hafa játað sök í málinu og geri engar sérstakar athugasemdir við bótakröfu.
Hann sagði skjólstæðing sinn gera sér grein fyrir alvarleika brotsins og fúslega gengist við gjörðum sínum. Meðal annars hafi hann hringt strax á lögreglu eftir árásina og gefið sig fram. Bætti hann við að ákærða og brotaþola sé ágætlega til vina í dag.
Hann sagði ákærða ekki á neinn hátt hafa reynt að fegra hlut sinn og gjörðir. Hann hefði getað snúið málinu upp í umfangsmikla aðalmeðferð með neitun sakargifta en ekki viljað það.
Verjandinn talaði um ungan aldur ákærða og vísaði til ástands hans þegar árásin var gerð, þó að það réttlæti ekki gjörðir hans. Hann hafi í tæpar tvær vikur á undan verið í mikilli neyslu og með miklar ranghugmyndir. Taldi hann brotaþola ætla að gera sér eitthvað og taldi sig þurfa að verða fyrri til. Brotaþoli hafi áður ráðist á ákærða áður er þeir sátu saman í fangelsi og því hafi ákærði haft ástæðu til að óttast brotaþola.
Verjandinn sagði ákærða vera greindan með áráttu- og þráhyggjuröskun sem skýri að mörgu leyti hegðun hans umrætt kvöld. Hann hafi talið að einhver væri á eftir sér.
Bætti hann við að ákærði hafi hæft brotaþola með einu skoti af mjög stuttu færi. Ákærði hafi ekki sýnt vilja til að klára verkið og veitti honum enga eftirför. Hann hafi aðeins hleypt hinum skotunum af til að hræða manninn.
Verjandinn benti á niðurlag áhættumats lögreglunnar um að ákærði sé ungur að árum og geti enn snúið við blaðinu ef hann nýti sér áfengis- og vímuefnameðferð. Erfitt sé að ná bata hljóti hann tíu ára dóm.
Ingólfur tjáði sig við dómara við lok þingfestingarinnar og sagðist hafa verið uppfullur af ranghugmyndum á þessum tíma. Hin fjögur skotin sem hann hafi hleypt af hafi farið upp í loftið og ekki í átt að manninum. Hann viðurkenndi brot sín og sagðist iðrast mjög. „Ég þakka guði og öllum sem tóku þátt í því að halda honum á lífi,“ sagði hann um brotaþola og bætti við að þeir séu góðir vinir í dag.